Innlent

Rítalín of mikið notað

Notkun Íslendinga á rítalíni er að verða sú mesta í heiminum, Alþjóðafíkniefnaráð hefur varað við mikilli notkun hér á landi. Dæmi eru um að foreldrar selji lyf barna sinna á svörtum markaði.

Helmingur þeirra sjúklinga sem notað hafði örvandi vímuefni og dvaldi á Vogi á síðasta ári hafði notað metýlfenidatslyf, en algengasta lyfið í þeim flokki er rítalín sem notað er meðal annars gegn ofvirkni. Af þeim sem sprautuðu sig í æð og dvöldu á Vogi höfðu 90% notað metýlfenidatslyf, að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Miðað við innflutning á metýlfenidatslyfjum á síðasta ári gleypti hver Íslendingur tvær tíu milligramma rítalíntöflur.

Vilhjálmur Ari Arason, heimilislæknir, segir í bloggi sínu á Eyjunni að dæmi séu um aðila sem selji lyfin á svartan markað eins og um hver önnur eiturlyf er að ræða. Fullorðnir misnota ýmist lyf sem ætluð eru börnum sem eru með ofvirkni eða athyglisbrest eða að þau sem ætluð eru fullorðnum með sömu sjúkdómsgreiningu. Í báðum tilfellum hefur geðlæknir ávísað lyfjaskírteini í upphafi.

Á málþingi um ADHD í gær var kallað eftir betri greiningu og meira eftirliti með ávísun lyfja. Áður hafði Alþjóðafíkniefnaráðið kallað eftir upplýsingum um notkunina hér á landi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×