Innlent

„Mjög mikilvægt skref í baráttunni“

Auður og dóttir hennar, Hrafnhildur Thoroddsen. Hrafnhildur slasaðist alvarlega í umferðarslysi fyrir rúmum 20 árum.
Auður og dóttir hennar, Hrafnhildur Thoroddsen. Hrafnhildur slasaðist alvarlega í umferðarslysi fyrir rúmum 20 árum. Mynd/Arnþór Birkisson
„Ég er fullviss um að það sé til mikil vísindaleg þekking sem er vannýtt. Þetta er því mjög mikilvægt skref í baráttunni," segir Auður Guðjónsdóttir, formaður Mænuskaðastofnunar Íslands, um samþykkt velferðarnefndar Norðurlandaráðs, en nefndin samþykkti í vikunni tillögu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um samhæfðar upplýsingar á Norðurlöndum um mænuskaða.

Tillagan fjallar um að fela nefnd sérfróðra vísindamanna og lækna að safna upplýsingum og gera yfirlit yfir norrænar og aðrar rannsóknir og meðferðir við mænuskaða, í formi skýrslu, og gera tillögur um úrbætur um rannsóknir og meðferðir á mænuskaða. Einnig var samþykkt að gera rannsókn á þátttöku fólks með mænuskaða á vinnumarkaði og að vinna að norrænni gæðaskrá um mænuskaða.

Í meira en tvo áratugi, eða allt frá því að dóttir hennar þá 16 ára að aldri slasaðist mikið í bílslysi, hefur Auður lagt sitt að mörkum svo að lækning við mænuskaða finnast. „Síðan þá hefur allt lífið verið undirlagt þessari baráttu," segir Auður.

Auður segist hafa skrifað Alþjóðaheilbrigðismálastofnunni bréf árið 1998 um mænuskaða. „Í allan þennan tíma hef ég verið að reyna að fá einhverja alþjóðastofun til að taka á þessu máli."

Um 1000 Norðurlandabúar verða fyrir mænuskaða árlega. Á síðustu áratugum hafa framfarir í meðferð við mænuskaða verið hægari en á öðrum sviðum læknavísinda. Tillagan sem velferðarnefnd Norðurlandaráðs samþykkti verður nú lögð fram til umfjöllunar á árlegu þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í nóvember.

Auður vonast til þess að tillagan verði samþykkt svo meðferð við mænuskaða taki meiri framförum en verið hefur hingað til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×