Innlent

Perlan verður seld

Orkuveita Reykjavíkur ætlar að selja eignir á borð við Perluna, Elliðárvatnshúsin og jörð við Úlfljótsvatn í næsta mánuði.
Orkuveita Reykjavíkur ætlar að selja eignir á borð við Perluna, Elliðárvatnshúsin og jörð við Úlfljótsvatn í næsta mánuði. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Orkuveita Reykjavíkur hyggst selja eignir á borð við Perluna, Elliðárvatnshúsin og jörð við Úlfljótsvatn í næsta mánuði. Ýmsar eignir sem til stendur að selja eru metnar á mörg hundruð milljónir. Stjórn Orkuveitunnar tekur ákvörðun um söluna á mánudag.

Stjórn Orkuveitunnar ætlaði að samþykkja listann á síðasta stjórnarfundi en gafst ekki tími til þess vegna heitra umræðna um yfirlýsingar stjórnarformannsins í fjölmiðlum um bókhald Orkuveitunnar.

Í ágúst síðastliðnum tilkynnti stjórnin að til standi að selja margar eignir Orkuveitunnar. Nú stendur til að setja þessar eignir í opið söluferli og eignirnar því auglýstar og jafnframt óskað eftir tilboðum. Fyrir stjórn félagsins liggur nú listi yfir þær eignir sem fyrirtækið hyggst selja en samkvæmt heimildum fréttastofu eru þessar eignir margar mjög verðmætar og sumar jarðir á listanum hundrað milljóna króna virði. Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, baðst undan viðtali um málið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hyggst Orkuveitan selja eignir á borð við hlut sinn í ýmsum félögum til dæmis HS Veitum og Landsneti, landareignir og lóðir sem seldar verða án jarðhitaeigna, eins og jörð sína við Úlfljótsvatn, Hvammsvík í Kjósarhreppi og Berserkseyri á Snæfellsnesi. Þá stendur til að selja fasteignir á borð við Hótel Hengil, sem rekið er í fyrrum starfsmannahúsi á Nesjavöllum, veitingastaðinn Perluna í Reykjavík og Elliðárvatnshúsin.

Stjórn Orkuveitunnar mun funda um málið á mánudag en búist er við því að Orkuveitan óski eftir því að Reykjavíkurborg kaupi eitthvað af þessum eignum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×