Innlent

Stefnir í blómlega starfsemi á brunareitnum

Nú fer að styttast í að byggingaframkvæmdum á brunareitnum á horni Lækjargötu og Austurstrætis ljúki en áætluð verklok eru í sumarbyrjun. Gengið hefur verið frá leigusamningum á stórum hluta húsnæðisins, en ennþá eru laus til leigu skrifstofurými, að því er fram kemur á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Meðal þeirra sem eru búnir að festa sér húsnæðið eru Skartgripa- og úraverslunin Leonard og Nordic Store, sem er sérverslun með íslenskar vörur. „Verslanir þeirra munu verða í Lækjargötuhúsinu og setja svip sinn á miðbæinn næsta sumar eða haust," að því er fram kemur. Í stokkahúsinu Austurstræti 22 verður veitingastaðurinn Happ sem sérhæfir sig í heilsusamlegu fæði, en býður einnig upp á námskeið og fræðslu.

„Í kjallaranum undir húsinu við Austurstræti 22b (þar sem áður var Nýja bíó) munu Hrefna Sætran og Ágúst Reynisson opna glæsilegan matsölustað, en þar munu þau m.a. bjóða upp á íslenska matargerð og hráefni. Hrefna og Ágúst reka veitingastaðinn Fiskmarkaðinn og munu gera það áfram," segir ennfremur.

Fréttamaður Stöðvar 2 var á ferðinni á dögunum og skoðaði framkvæmdirnar eins og sést í meðfylgjandi frétt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×