Innlent

Sendiherra Bandaríkjanna barðist fyrir að fá risalán til Íslands

Valur Grettisson skrifar
Carol Van Voorst taldi það þjóna hagsmunum Bandaríkjanna að lána Íslandi milljarð.
Carol Van Voorst taldi það þjóna hagsmunum Bandaríkjanna að lána Íslandi milljarð.

Fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carol Van Voorst, sendi langan póst til Bandaríkjanna þar sem hún rökstuddi í fimm liðum afhverju bandarísk yfirvöld ættu að lána Íslandi milljarðinn, sem þáverandi seðlabankastjóri seðlabanka Íslands, Davíð Oddsson, óskaði eftir. Þetta er meðal skjala sem finna má í gögnum Wikileaks.

Fyrir utan þau rök að Ísland er ákaflega vel staðsett varnarlega séð, þá sagði hún Ísland gríðarlega mikilvægt í framtíðinni varðandi kapphlaup um orkulindir og siglingaleiðir þegar norðurskautið bráðnar.

Rússar hafa meðal annars sóst fast eftir því að festa eign sinni á svæðið í ljósi þess að þar er finna mikið af gasi og olíu. Þá hafa Kínverjar einnig sýnt svæðinu mikla athygli.

Van Voorst óttast að ef Bandaríkjamenn komi Íslendingum ekki til aðstoðar þá muni þeir um leið glata hollustu þeirra sem hún segir bandarísk yfirvöld hafa eytt gríðarlegum fjármunum og tíma í að byggja upp.

Þá telur Van Voorst að Ísland verði hornsteinn áætlunar Bandaríkjamanna um að nýta sér endurnýjanlega orkugjafa. Hún segir sérfræðiþekkingu Íslendinga gríðarlega mikilvæga fyrir Bandaríkin. En efnahagshrunið geti stórskaðað þessi áform að hennar mati.

Lokarök Van Voorst er einföld; Íslendingar eru stoltir af því að þeir hafa ávallt borgað skuldir sínar til baka. Því sé það frekar í hag Bandaríkjanna að lána Íslandi heldur en ekki.

Og það er ljóst af skrifum Van Voorst að henni þykir vænt um land og þjóð. Þannig skrifaði hún að það sé þess virði að veðja á Íslendinga, sem séu hugmyndaríkir, vel menntaðir og siðfágað fólk að hennar mati.

Hún skrifar að lokum að ef Bandaríkin veðja á Ísland þá muni það borga sig margfalt til baka þegar kapphlaupið um norðurskautið hefst. Þá muni Íslendingar minnast Bandaríkjamanna með hlýhug.

Þess má geta að seðlabanki New York ríkis hafnaði beiðni Davíðs um lán upp á einn milljarð dollara.

Skjal Van Voorst má lesa hér í heild.


Tengdar fréttir

Kæri Tim: Seðlabankinn óskaði eftir milljarði frá Bandaríkjunum

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, sendi Timothy Geithner, seðlabankastjóra seðlabanka New York, bréf 24. október 2008 þar sem hann óskaði eftir því fyrir hönd seðlabankans að fá að láni einn milljarð dollara til þess að mæta þrengingum efnahagshrunsins.

Davíð Oddsson bað um milljarðs dollara lán

Samkvæmt þeim skjölum sem Wikileaks hefur nýlega birt bað Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóri, Bandaríkjamenn um að lána Íslandi einn milljarð dollara árið 2008. Sendiráð Bandaríkjanna hvatti bandarísk stjórnvöld til þess að verða við beiðninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×