Innlent

Heimilislæknar geta ekki lengur ávísað Rítalíni

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Geir Gunnlaugsson.
Geir Gunnlaugsson.

Heimilslæknar geta ekki lengur ávísað Rítalíni til sjúklinga eftir að verklagsreglum var breytt hjá ráðnuneytinu.

Nýjar vinnureglur voru unnar af vinnuhóp á vegum velferðarráðuneytisins. Markmið þeirra er að draga úr ofnotkun og koma í veg fyrir misnotkun lyfja gegn athyglisbresti og ofvirkni.

Í kjölfar reglnanna breyttust einnig lyfjaskírteini fyrir svokölluðum metýlfenídat lyfjum svo sem Rítalíni. Skírteinin verða nú eyrnamerkt þeim lækni sem sækir um þau. Með breytingunum er verið að sjá til þess að einn sérfræðingur beri ábyrgð á ávísun þessara lyfja fyrir hvern einstakling. Einnig munu nú aðeins geðlæknar, barna- og unglingageðlæknar, barnalæknar og taugalæknar sjá um frumgreiningu á ADHD og geta hafið og skipulagt meðferð í framhaldi af greiningu. Endurútgáfa skírteina stendur yfir en einstaklingar sem fengu upphaflega greiningu hjá heimilislækni munu ekki þurfa að leita endurmats hjá sérfræðingi að svo stöddu.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir að með þessu móti sé verið að stofna til teymisvinnu milli sérfræðinga og heimilslækna sem muni til lengri tíma litið bæta þjónustu þeirra aðila sem þurfi á þessum lyfjum að halda. Nýjar vinnureglur geri embættinu kleift að fylgjast með notkuninni og geti því spornað við misnotkun.

Frumgreining ADHD hjá fullorðnum mun í nýjum vinnureglum einskorðast við geðsvið Landspítala. Rætt verður nánar um rítalínmeðferðir fullorðna á læknadögum nú síðdegis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×