Innlent

Sóley mótmælir hugmyndum um einkavæðingu OR

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi vinstri grænna, mótmælir harðlega hugmyndum stjórnarformanns Orkuveitu Reykjavíkur um að æskilegt sé að einkavæða fyrirtækið. Stjórnarfundur Orkuveitunnar hófst nú klukkan níu og stendur til ellefu. Sóley gaf út fyrir fundinn að á honum myndi hún leggja fram tillögu þar sem hún krefst þess að eigendafundur verði kallaður saman til að fara yfir viðbrögð við einkavæðingarstefnu stjórnarformannsins.

Sóley segir það skjóta skökku við að vilja færa fyrirtækið úr höndum sveitafélagsins og til einkaaðila, nú þegar almenningur gerir æ ríkari kröfu um opinbert eignarhald á auðlindum, virkjunum og orkufyrirtækjum og ríkisvaldið berst við að vinda ofanaf einkavæðingu lítils orkufyrirtækis á Suðurnesjum. Hún bendir á að sú krafa hafi ekki síst verið reist af kjörnum fulltrúum Besta flokksins.

Áhrif þessara yfirlýsinga á stöðu fyrirtækisins gagnvart lánadrottnum er umhugsunarverð að mati Sóleyjar, en þeir hafa hingað til getað treyst á bakábyrgð borgarsjóðs. Ennfremur bendir hún á að einhverjir kunni að spyrja sig hversu öruggt það er að taka þátt í endurfjármögnun fyrirtækisins þegar möguleiki kynni að opnast á að kaupa það að hluta eða í heild.

„Hér hlýtur því að vera um alvarlegan trúnaðarbrest að ræða, bæði við yfirlýsta stefnu fyrirtækisins og þá vinnu sem átt hefur sér stað af hálfu eigendanefndar Orkuveitu Reykjavíkur. Þá vakna spurningar um hvort nægilegt traust ríki milli meirihluta borgarstjórnar og stjórnarformanns til að hann geti gengt hlutverki sínu áfram," segir Sóley sem vonast til að eigendafundur verði haldinn hið fyrsta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×