Innlent

Verðbólga ekki minni síðan 2004

Í Búðarferð Útsölur leiddu til tíu prósenta verðlækkunar á fötum og skóm, segir Hagstofa Íslands. Fréttablaðið/Stefán
Í Búðarferð Útsölur leiddu til tíu prósenta verðlækkunar á fötum og skóm, segir Hagstofa Íslands. Fréttablaðið/Stefán
Verðbólga hjaðnaði um 0,9 prósent í janúar samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Tólf mánaða verðbólga hefur því farið úr 2,5 prósentum í 1,8 prósent.

Hagstofan bendir á að vetrarútsölur hafi töluverð áhrif til lækkunar verðlags, auk þess sem sú breyting hafi verið gerð á samsetningu vísitölunnar að nú sé litið á útvarpsgjald sem beinan skatt í stað þjónustugjalds áður.

Fram kemur í umfjöllun Greiningar Íslandsbanka að hjöðnun verðbólgunnar hafi verið örlítið meiri en búist hafi verið við, en spáð hafi verið 0,6 til 0,8 prósentustiga lækkun. „Verðbólga hefur nú ekki verið minni hér á landi síðan í mars 2004, og má telja það jákvæð tíðindi fyrir skuldsett heimili,“ segir í umfjöllun bankans.

Greiningardeild Arion banka varar þó við því að almennir húsnæðiseigendur fagni of fljótt þar sem árstíðabundnir þættir skýri minni verðbólgu. Talsverð verðbólga sé í pípunum í febrúar og mars. „Þá má ekki gleyma því að sú hætta er fyrir hendi að gengisveiking krónunnar að undanförnu skili sér út í verðlagið á næstunni,“ segir greiningardeildin.- óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×