Innlent

Fréttir vikunnar: Hákarlaþjófnaður og bankamenn í klandri

Valur Grettisson skrifar
Sinueldur í Vatnsmýrinni.
Sinueldur í Vatnsmýrinni.

Vikan hófst á uppgjöri innan þingflokks VG. Á þingflokksfundi í þar síðustu viku lögðu Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir, þau hin sömu og sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga fyrir jól, fram greinargerð þar sem þau svöruðu Árna Þór Sigurðssyni, en hann sakaði þau um að reyna að þvinga ríkisstjórnina til að skipta um stefnu í greinargerð sem hann lagði fyrir þingflokkinn tveimur dögum fyrir jól. Þau fóru auk þess fram opinbera afsökunarbeiðni að hálfu Árna Þórs.

Á síðasta mánudag var svo fyrsti fundurinn en um tíma var beinlínis óttast um heilsu ríkisstjórnarinnar og ýmsar kenningar fóru á kreik, meðal annars að Framsókn myndi stökkva um borð í ríkisstjórnarsamstafið til þess að styrkja það.

Fundurinn fór svo fram í gömlu moggahöllinni. Fyrir utan spurðu fréttamenn Ásmund Einar hvort hann hefði óskað eftir því að Árni Þór bæðist afsökunar. Hann svaraði þá svona: „Nú fer lyftan niður. Hún fór upp fyrr í dag." Spurður nánar út í þau orð svaraði þingmaðurinn: „Það þýðir að hún er búin að fara upp og fer núna niður."

Þjóðin var litlu nærri en þingflokkur VG virtust hafa grafið stríðsöxina á fundinum.



Lilja Mósesdóttir og Ásmundur Einar Daðason eftir að lyftan fór upp og kom niður.

Þjófur í bakaríi og sinueldur

Það var síðan á þriðjudeginum sem rekstrarstjóri Bæjarbakarís birti umdeilt myndband á Youtube-vefnum þar sem sjá mátti ungan dreng stela farsíma eins starfsmanns bakarísins. Stuttu eftir að myndbandið birtist var það fjarlægt af vefnum en það breytti ekki því að faðir barnsins hafði samband við bakaríið og kom símanum til skila. Þá baðst hann afsökunar á þessum sérkennilega þjófnaði.

Á þriðjudagskvöldinu kviknaði sinueldur í Vatnsmýrinni. Um fimmtán slökkviliðsmenn tóku þátt í aðgerðinni. Þrír dælubílar frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins fóru á vettvang og einn tankbíll. Þá var stór slökkvibíll frá Reykjavíkurflugvelli notaður til að slökkva eldinn.

Lögreglan lokaði stóru svæði í kringum eldinn, en margir fjölmenntu á svæðið til að sjá eldinn. Mikill reykur barst frá svæðinu og yfir nálæg hús. Grunur leikur á íkveikju.



Ótrúlegu magni af kæstum hákarli stolið.Mynd Freisting.is

Umdeild tilraunaborun og hákarlaþjófnaður

Á mánudeginum veitti Orkustofnun Landsvirkjun leyfi til þess að framkvæma tilraunaboranir á Gjástykki í Þingeyjarsýslum. Umhverfisráðherra brást hinn versti við sem og forsætisráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir.

„Ríkisstjórnin er einhuga í því að vinna að friðlýsingu Gjástykkis í samræmi við samþykkt hennar þar um, snemma á síðasta ári," sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra sem varð til þess að forstjóri Landsvirkjunar, Hörður Arnarson, lýsti því yfir að það yrði ekki ráðist í framkvæmdina í andstöðu við vilja ríkisstjórnarinnar.

Einhver sérkennilegast stórþjófnaður seinni tíma kom upp á miðvikudaginn þegar rúmlega hálfu tonni af kæstum hákarli var stolið úr hjalli á Suðurnesjum. Þjófarnir stálu 500-700 kílóum af fullverkuðum hákarli en létu þann óverkaða í friði. Kunnáttumenn sögðu fagmenn hafa verið að verki.

Lögreglan hefur engar vísbendingar fengið og kannast ekki við annan eins þjófnað á fiskmeti.

Matreiðslumeistari Múlakaffis, sem Vísir ræddi við, sagði magnið hreint út sagt ótrúlegt. Múlakaffi þjónustar um sex til átta þúsund manns yfir þorrann. Yfir það tímabil kaupa þeir um tvö til þrjú hundruð kíló af verkuðum hákarli og selja.



Ágúst Hilmar Dearborn fagnaði sigri í vikunni.

Flogaveikur fékk bætur

Ágúst Hilmar Dearborn fagnaði í vikunni þegar hann vann skaðabótamál gegn ríkinu. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ríkið til þess að greiða Ágústi sex og hálfa milljón fyrir ólögmæta frelsissviptingu.

Málið er hið sérkennilegasta en Ágúst var handtekinn árið 2003 eftir að hann fékk flogakast undir stýri í Njarðvík. Hann ók út af veginum og kom lögreglan á vettvang ásamt sjúkraflutningamönnum. Ágúst missti meðvitund eftir flogakastið.

Þegar sjúkraflutningamenn hlúðu að honum vaknaði Ágúst og brást hinn versti við. Lögreglan fann sig knúna til þess að handtaka hann í kjölfarið. Héraðsdómur féllst á að handtakan hefði verið lögmæt. Hinsvegar fór lögreglan út fyrir valdsvið sitt þegar hún færði Ágúst handjárnaðann á lögreglustöð og lét hann dúsa í fangaklefa járnaðann fyrir aftan bak. Þar fékk hann að dúsa í um hálftíma án þess að læknir væri fenginn til þess að kanna ástand hans.

Fyrir vikið þótti dóminum rétt að ríkið greiddi Ágústi á sjöundu milljón króna í skaðabætur, sem þykir afar há upphæð samkvæmt lögfróðum mönnum.



Enn leitar lögreglan að Matthíasi.

Kynferðisleg misnotkun dýra bönnuð

Sennilega kom það flestum í opna skjöldu þegar Vísir sagði frá því að nefnd um endurskoðun dýraverndarlaga myndi leggja til að kynferðisleg misnotkun dýra yrði gerð refsiverð. Það er nefnilega hvergi getið þess í íslenskum lögum um dýravernd að það sé ólöglegt. Þó er vissulega sé óleyfilegt að fara illa með dýr. Sömu sögu er að segja um dýraverndarlög í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Dýraverndunarsamtök í þessum löndum berjast þó fyrir lagabreytingum og innan Norræna dýraverndarsambandsins er einhugur um að bann verði lögfest í öllum löndum.

Aðeins hafa rúmlega 80 lönd í heiminum skýr ákvæði um að kynmök fólks við dýr teljist misnotkun, en Holland og Bretland bættust nýlega í hóp þeirra landa.

Hvar er Matthías?

Íslendingar hafa svo fyglst vel með fréttum um dularfullt hvarf Matthíasar Þórarinnssonar, rúmlega tvítugs manns, sem hefur verið saknað síðan fyrir áramót. Bifreið hans, grænn rússajeppi, fannst brunninn í malarnámu nærri Esjunni í lok vikunnar. Matthías er ekki enn fundinn.

Lögreglan hefur greinargóða lýsingu á honumþ Lögreglan segir að Matthías skeri sig nokkuð úr hvað klæðaburð varðar. Hann sé stundum í fötum sem hann saumar sjálfur. Þegar sást til hans var hann klæddur í græna úlpu og gallabuxur. Hann var með svart „buff" á höfðinu.





Sigurjón Þ. Árnason var úrskurðaður í gæsluvarðhald í vikunni.

Andstyggilegt bréf

Og það var ekki geðslegt bréfið sem Þórarinn Guðlaugsson sendi aðstoðarmanni innanríkisráðherrans, Höllu Gunnarsdóttur, þar sem hann sagði hana krossþroskahefta og hótaði að nauðga henni. Ástæðan fyrir því að hann sendi bréfið var grein sem Halla skrifaði fyrir nokkrum árum um staðgöngumæður þar sem hún gagnrýndi fyrirbærið harðlega.

Bankamenn í gæsluvarðhald

Á fimmtudaginn bárust óljósar fregnir af því að sérstakur saksóknari hefði framkvæmt þrjár húsleitir og yfirheyrt sjö einstaklinga. Síðar kom í ljós að meðal þessara einstaklinga var fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason auk Ívars Guðjónssonar, sem starfaði í bankanum. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir þeim og féllst dómari á það.

Á föstudeginum var Sigurjón svo úrskurðaður í gæsluvarðhald til 25. janúar. Ívar var úrskurðaður í sjö daga gæsluvarðhald.

Stór liður í rannsókn sérstaks saksóknara vegna meintrar markaðsmisnotkunar bankans snýst um kaup á hlutabréfum í bankanum af hálfu félaga sem héldu utan um kauprétti starfsmanna Landsbankans og lánveitingar til þessara félaga. Átta aflandsfélög í eigu Landsbankans sem stofnuð voru utan um kauprétti starfsmanna voru látin kaupa 13,2 prósenta hlut sem gerði þau samanlagt að næststærsta eiganda bankans. Öll félögin lutu stjórn æðstu stjórnenda.



Áreksturinn var harður en klippa þurfti ökumann út úr bílnum.

Þunguð kona slapp ótrúlega vel frá bílveltu

Á laugardeginum urðu tvö ótengd óhöpp á Reykjanesbrautinni með aðeins tíu mínútna millibili. Annarsvegar varð árekstur í Kúagerði þar sem átta manns slösuðust. Tíu mínútum síðar valt bifreið sem þunguð kona ók. Með henni í bílnum var eins árs barn hennar. Bíllinn fór þrjár veltur og gjöreyðilagðist. Móðirinn fékk smá skurð á höfuð og eins árs barnið slapp ómeitt. Barnið í móðurkviðnum heilaðist einnig vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×