Innlent

Styðja bræðslumenn

Vilhjálmur Birgisson.
Vilhjálmur Birgisson.

„Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness fer líka í vinnustöðvun, takist bræðslumönnum ekki að semja, áður en boðað verkfall þeirra hefst," segir Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélagsins.

Bræðslumenn í Afli og Drífanda, sem starfa í loðnuverksmiðjum frá Vopnafirði til Vestmannaeyja, hafa boðað verkfall frá 7. febrúar næstkomandi. Þeir ætla í hart og segja að engri loðnu verði landað hér meðan á verkfalli stendur. Loðna hefur verið unnin á Akranesi og líka á Þórshöfn á Langanesi.

Samtök atvinnulífsins telja að ólöglega hafi verið boðað til verkfallsins og vilja að félagsdómur skeri úr um málið.

Vilhjálmur Birgisson segir að þeir Skagamenn ætli að bíða eftir niðurstöðu félagsdómsins. „Ég get ekki boðað til verkfalls hér, í einni verksmiðju, fari svo að félagsdómur telji verkfallsboðun hinna ekki löglega. Við ætlum því að bíða eftir þeirri niðurstöðu áður en frekari skref verða stigin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×