Innlent

Jón sagði já en meinti nei

Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði mistök þegar atkvæði voru greidd um frumvarp til laga um stjórnlagaþing aðfaranótt 16. júní síðastliðið sumar. Jón var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem greiddi atkvæði með málinu. Óli Björn Kárason sagði nei en aðrir þingmenn flokksins sátu hjá eða voru fjarverandi atkvæðagreiðsluna.

Í Fréttablaðinu í gær var fjallað um hvernig sjálfstæðisþingmenn ráðstöfuðu atkvæðum sínum.

„Það hafa átt sér stað mistök í atkvæðagreiðslunni,“ sagði Jón í samtali við blaðið. „Ef ég hef greitt atkvæði með, sem allt bendir til, þá voru það mistök.“

Já-atkvæði Jóns var í hróplegu ósamræmi við ræðu hans um málið fjórum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna. Í henni lýsti hann þeirri skoðun Sjálfstæðisflokksins að fresta bæri umfjöllun um málið.

Hann fór hörðum orðum um vinnubrögðin, sagði málið keyrt áfram og fjölmörgum spurningum væri ósvarað. „Það er óhjákvæmilegt að komast að þeirri niðurstöðu að málið hafi verið sett fram í miklu óðagoti og taugaveiklun á síðustu dögum þingsins,“ sagði Jón í ræðunni.

Að hans ósk eru starfsmenn Alþingis að skoða atkvæðagreiðsluna. „En þetta breytir engu um niðurstöðu málsins, ef þetta hefði verið tæpt hefðu menn eflaust verið betur á vaktinni, en svona getur gerst.“- bþs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×