Innlent

Uppsagnirnar óhjákvæmilegar

Herjólfur
Herjólfur
Eimskip segir í tilkynningu að uppsagnir þriggja kvenna sem hafa starfað í Herjólfi sem þernur í mörg ár hafi verið óhjákvæmilegar. Í Fréttablaðinu í morgun var sagt frá þremur konum sem þurftu að taka á sig fleiri störf en áður og án hærri launa, eftir að hreinsurnarteymi ferjunnar var sagt upp störfum eftir áramót.

Þær samþykktu það, en ekki að þrífa eldhús og klefa, og sagði ein kvennanna að rekstrarstjóri Herjólfs hafi samþykkt að taka það út úr samningnum. Þegar þær ætluðu svo að skrifa undir voru þau ákvæði enn inn í samningnum og var þá haft eftir einni að rekstrarstjórinn hafi sagt að samningnum yrði ekki breytt. Þeim var svo öllum sagt upp á sunnudaginn, með uppsagnarbréfi dagsett þann 12. janúar.

Eimskip segir í tilkynningu að „vegna breytinga á siglingaleið Herjólfs var nauðsynlegt að endurskoða störf um borð."

Þar segir einnig að komið hafi verið til móts við starfsmenn með gerð starfslýsinga sem endurskoða átti að nokkrum mánuðum liðnum. „Nokkrir starfsmenn gátu ekki sætt sig við þær starfslýsingar. Því var óhjákvæmilegt að segja þeim upp störfum með kjarasamningsbundnum fyrirvara."

„Eimskip hefur ávallt lagt sig fram við að virða ákvæði kjarasamninga starfsmanna sinna eins og gert var í þessu tilviki.

Eimskip mun ekki ræða frekar um störf einstaka starfsmanna sinna og óskar umræddum fyrrum starfsmönnum velfarnaðar í framtíðinni," segir ennfremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×