Körfubolti

Jón Arnór og Haukur Helgi mætast á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór og Jakob Sigurðarson.
Jón Arnór og Jakob Sigurðarson.
Það verður söguleg stund fyrir íslenskan körfubolta í hádeginu á morgun þegar Assignia Manresa tekur á móti CAI Zaragoza í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta. Með þessum liðum spila nefnilega íslenskir landsliðsmenn og verður þetta í fyrsta sinn sem Íslendingar mætast í bestu körfuboltadeild í Evrópu.

Jón Arnór Stefánsson er á sínu fjórða tímabili í spænsku deildinni, en hann leikur nú með CAI Zaragoza eftir að hafa verið hjá CB Granada síðustu tvö tímabil þar á undan. Jón Arnór hefur verið eini íslenski leikmaðurinn í bestu deildum Evrópu undanfarin ár en hann var líka sér á báti þegar hann lék á Ítalíu og í Rússlandi.

Haukur Helgi Pálsson hætti í Maryland-háskólanum eftir síðasta vetur og gekk til liðs við Assignia Manresa. Hann byrjaði tímabilið í byrjunarliðinu en hefur fengið minna að spreyta sig að undanförnu. Það er vonandi að Haukur Helgi, sem er aðeins 19 ára gamall, fái að reyna sig á móti Jóni Arnóri og félögum á morgun.

Leikurinn fer fram á heimavelli Assignia Manresa og má búast við góðri mætingu enda eru þetta nágrannalið á Norður-Spáni.

CAI Zaragoza getur náð Assignia Manresa að stigum með sigri. Það yrði þá þriðji sigur Zaragoza-liðsins í röð, en það hefur verið að braggast eftir erfiða byrjun. Það er hægt að segja öfuga sögu af Manresa, sem byrjaði mjög vel en hefur verið að gefa eftir.

Leikurinn hefst klukkan 11.15 að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×