Innlent

Bíða niðurstöðu blóðrannsóknar

Banaslysið gerðist nokkrum kílómetrum sunnan við Akureyri og er blóðsýni úr ökumanninum nú til rannsóknar.  fréttablaðið/vilhelm
Banaslysið gerðist nokkrum kílómetrum sunnan við Akureyri og er blóðsýni úr ökumanninum nú til rannsóknar. fréttablaðið/vilhelm
Lögreglan á Akureyri bíður eftir niðurstöðum blóðrannsóknar á ökumanninum sem var undir stýri þegar maður lést á Eyjafjarðarbraut 20. janúar síðastliðnum.

Samkvæmt lögreglunni á Akureyri virðist sem ökumaðurinn, sem er 24 ára gamall, hafi keyrt yfir á öfugan vegarhelming og lent á manninum, sem var að skokka við veginn. Bæði bíllinn og hinn gangandi voru á leið norður þjóðveginn, í átt að Akureyri. Bíllinn lenti aftan á manninum með fyrrgreindum afleiðingum. Einn farþegi var í bílnum, einnig á þrítugsaldri. Ekkert bendir til þess að ekið hafi verið á ólöglegum hraða, en skyggni var slæmt og mikill vindur. Bíllinn stoppaði um leið og það voru ökumaður og farþegi sem tilkynntu slysið til lögreglu.

Gunnar Jóhannsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, segir að leiði blóðrannsókn í ljós að ökumaður hafi verið undir áhrifum, verði hann að öllum líkindum ákærður.

„Ef fíkniefni eða áfengi mælist í blóði ökumannsins, gæti farið svo að hann verði ákærður fyrir manndráp af gáleysi,“ segir Gunnar. „Það er mjög algengt að það sé ákært í svona málum.“ Ökumaður og farþegi hafa komið áður við sögu lögreglu. - sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×