Innlent

Nígerusvindl í sms formi

Jóhanna Margrét Gísladóttir. skrifar

Nígeríusvindlarar hafa náð tökum á SMS tækninni og sendu skilaboð á fjölmarga Íslendinga í nótt. Hrannar Pétursson upplýsingafulltrúi Vodafone segir slík skilaboð sífellt algengari og erfitt sé að fyrirbyggja þau.

Fjölmargir Íslendingar fengu frekar undarleg sms-skilaboð í nótt. Í skilaboðunum, sem skrifuð eru á bjagaðri ensku, er viðtakandinn beðinn um að hafa samband vegna arfs sem geymdur er í banka sem kallast ,,first city monument bank." Þá er gefið upp tölvupóstfangið accountrecords01@live.com. Glöggir gera sér þó eflaust grein fyrir því að um svokallað nígeríusvindl er að ræða.

Nígeríusvindl eru algeng en afar sjaldgæft þykir að mönnum gefist slík viðskiptatækifæri í gegnum farsíma, oftast berast þau í gegnum tölvupóst.

Fréttastofan reyndi þó að hafa samband við svindlarann og hringdi í símanúmerið sem sms-skilaboðin voru send úr, en án árangurs.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone, segir svona skilaboð vera að færast í aukanna með auknum ruslpósti í heiminum. En hvernig fengu þessir svindlarar símanúmerin?

„Almennt séð er ekki mjög flókið að verða sér úti um íslensk símanúmer. Upplýsingarnar er að finna á síðum íslenskra aðila svo er þriðji möguleikinn, sem stundum er notaður út í heimi, einfaldlega að giska á númer."

Hrannar biður fólk að eyða þessum skilaboðum og ekki gera neitt sem beðið er um.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×