Íslenski boltinn

Ray Anthony: Það heimskulegasta sem ég hef gert

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ray Anthony hefur spilað tæpa 200 leiki fyrir meistaraflokk Grindavíkur.
Ray Anthony hefur spilað tæpa 200 leiki fyrir meistaraflokk Grindavíkur.
Bakvörðurinn Ray Anthony Jónsson var hinn hressasti þegar undirritaður heyrði í honum hljóðið í dag. Grindavík vann dýrmætan 2-0 sigur á ÍBV í gær og situr í 9. sæti Pepsi-deildarinnar með níu stig.

„Jú, maður sá leikmenn brosa eftir leik í fyrsta skipti. Það er orðið svolítið langt síðan maður hefur séð það. Þetta rothögg sem við fengum (gegn FH) virðist hafa hjálpað eitthvað,“ segir Ray.

Ray var ekki í leikmannahópnum gegn Fram og sat á bekknum gegn Eyjamönnum í gær.

„Á fyrstu æfingu eftir leikinn gegn FH tognaði ég aðeins í náranum. Ég hef verið að ströggla en þetta er að koma. Ég hefði getað spilað í gær en það var tvísýnt. Fyrst þetta gekk svona vel var ágætt að vera ekkert að reyna á þetta alveg strax,“ segir Ray.

Það er óhætt að segja að mikið hafi verið fjallað um frammistöðu Ray í 7-2 tapinu gegn FH. Markakvöld beggja sjónvarpsstöðva fjölluðu um frammistöðu hans auk dagblaðanna. Menn áttuðu sig hreinlega ekki á því hvað Ray ætlaði að gera þegar hann lagði upp fyrsta mark FH í upphafi leiks.

„Ég ætlaði ekkert að leyfa FH að fá hornspyrnu. Ég ætlaði að skýla boltanum en svo stoppaði hann. Þá kemur maður vinstra megin að mér og ég sný með andlitið í átt að markinu. Fyrsta sem ég hugsaði var að hreinsa alla leið yfir. Ég hitti hann bara ekki og úr varð frábær sending, fyrir FH-ingana,“ segir Ray.

Menn hafa vel því fyrir sér hvort eitthvað meira lægi að baki stoðsendingunni. Jafnvel hefur verið nefnt að peningar væru í spilinu. Einhver veðmálastarfsemi.

„Ég hef allavegna ekki fengið þessa peninga til mín, segir Ray og hlær.

„Nei nei, þetta var örugglega það heimskulegasta sem ég hef gert í fótbolta. Allt frá því ég byrjaði að æfa. Þetta er eitt af því fyrsta sem maður lærir, að vera ekki að hreinsa í átt að markteignum,“ segir Ray.

„Ég sagði í gríni við einhverja félaga mína að ef leikurinn hefði farið 1-0 fyrir FH hefði ég örugglega lagt skóna á hilluna,“ sagði Ray og hló.

Grindavík hefur fengið fjögur stig úr tveimur síðustu leikjum eftir tapið stóra gegn FH.

„Það er fín stemmning og vonandi heldur þetta áfram. Við höfum ekki verið með svona góðan mannskap í mörg ár. Góðir einstaklingar þannig að þetta hlýtur að fara að detta inn. Eitt stig í einu,“ sagði Ray að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×