Erlent

Átökin magnast enn í Líbíu

benghazi Kveikt var í byggingum sem hýstu öryggissveitir borgarinnar Benghazi í gær. Mótmælendur eru sagðir hafa náð völdum í borginni, sem er önnur stærsta borg landsins. Blóðug átök áttu sér stað þar. fréttablaðið/ap
benghazi Kveikt var í byggingum sem hýstu öryggissveitir borgarinnar Benghazi í gær. Mótmælendur eru sagðir hafa náð völdum í borginni, sem er önnur stærsta borg landsins. Blóðug átök áttu sér stað þar. fréttablaðið/ap
Mörg hundruð manns eru sagðir hafa verið drepnir í mótmælum í Líbíu. Mótmælin halda áfram og hafa nú náð til höfuðborgarinnar Tripoli. Þar var skotið á mótmælendur og herma fréttir að meðal annars hafi herflugvélar skotið á fólk úr lofti. Íbúar í Tripoli sögðu einnig að sprengjum hefði verið varpað á borgina.

Mótmælendur eru sagðir hafa náð nokkrum borgum á sitt vald, þar á meðal Benghazi, annarri stærstu borg landsins. Sonur Moammars Gaddafi forseta, Saif el-Islam, viðurkenndi í sjónvarpsávarpi á sunnudagskvöld að mótmælendur hefðu náð tveimur borgum á sitt vald. Hann lofaði umbótum í landinu en varaði við því að ef mótmæli héldu áfram væri hætta á að borgarastyrjöld brytist út. Þá sagði hann að herinn væri í liði með föður sínum og barist yrði „til síðasta manns, síðustu konu, síðustu byssukúlu“.

Dómsmálaráðherra landsins, Mustafa Mohamed Abud Al Jaleil, sagði af sér embætti í gær vegna ofbeldisverka hersins og öryggissveita.

Sendiherra landsins hjá Arababandalaginu sagði einnig af sér í gær og tilkynnti stuðning við mótmælendur. Sendiherra landsins í Indlandi hefur einnig sagt af sér. Níu starfsmenn ráðuneytisins í Bretlandi og þrír starfsmenn í sendiráðinu í Svíþjóð hafa hætt störfum fyrir ríkisstjórn Líbíu.

Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins fordæmdu árásir stjórnvalda á mótmælendur í gær. Allir embættismenn Bandaríkjanna sem hægt var að koma úr landi hafa verið fluttir frá Líbíu ásamt fjölskyldum sínum. Evrópuþjóðir hafa einnig gripið til slíkra aðgerða, auk þess sem alþjóðleg olíufyrirtæki hafa flutt starfsmenn sína á brott.

Lokað hefur verið fyrir internetið að mestu og ekki er hægt að hringja til annarra landa úr landlínum. Því hefur verið erfitt að fá fréttir staðfestar.

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagðist í gær hafa fengið upplýsingar sem bentu til þess að Gaddafi hefði eða gæti flúið til Venesúela. Embættismenn þar neituðu þessum fregnum. Ljóst þykir þó að hann hafi flúið höfuðborgina.

Þá lentu tvær líbískar herflugvélar á Möltu í gær og gáfu flugmennirnir sig fram við yfirvöld. Á Möltu lentu einnig tvær þyrlur með sjö manns sem sögðust vera franskir ríkisborgarar.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×