Innlent

Háskóli Íslands slítur samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur

SB skrifar
Frá undirskrift samninganna 2008. Á myndinni er Kjartan Magnússon, þáverandi stjórnarformaður OR, Kristín Ingólfsdóttir og Svafa Grönfeldt.
Frá undirskrift samninganna 2008. Á myndinni er Kjartan Magnússon, þáverandi stjórnarformaður OR, Kristín Ingólfsdóttir og Svafa Grönfeldt. Mynd af vef Háskóla Íslands.
Háskóli Íslands hefur slitið samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur og Háskólann í Reykjavík um Reyst, orkuskólann sem stofnaður var árið 2008. Fækkun nemenda og ákvörðun Orkuveitunnar að leggja ekki til fjármagn liggur til grundvallar ákvörðunar Háskólans.

Hlutafélag um Reyst var stofnað í febrúar 2008. Rektorar Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík ásamt þáverandi stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur undir hlutahafasamkomulagið og hóf fyrsti árgangurinn nám við orkuskólann, haustið sama ár. Hlutafélagið var í jafnri eigu háskólanna tveggja og Orkuveitunnar.

Edda Lilja Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Reyst, staðfesti að Háskóli Íslands hefði slitið samstarfinu. Hún sagði HÍ hafa selt hlut sinn í félaginu en vildi ekki gefa upp á hvað hluturinn hefði verið seldur. Hún staðfesti einnig að engin framlög bærust í ár frá Orkuveitu Reykjavíkur til Reyst en Orkuveitan hefur ráðist í miklar niðurskurðaaðgerðir eftir að eigendur Orkuveitunnar þurftu að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti með milljarðalánveitingum.

Orkuskólanum Reyst var ýtt úr vör með fögrum fyrirheitunum. Markmiðið var að laða að hæfileikafólk og fjölga hæfum starfsmönnum á sviðum sjálfbærrar orkunýtingar. Námið fór meðal annars fram í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Við undirskrift samninga var tekið fram að fyrirspurnir hefðu borist víðsvegar að úr heiminum um námið.

Raunverulegur áhugi varð þó ekki eins mikill og væntingar stóðu til.

Jón Atli Benediktssona, aðstoðarrektors vísinda og kennslu við háskóla Íslands, segir nægilegan nemendafjölda ekki hafa náðst við skólann. Sú staðreynd og einnig það að Orkuveitan ákvað að leggja ekki fram fjármagn til námsins liggi til grundvallar ákvörðunar Háskólans. Þá væri Háskóli Íslands með á stefnuskrá sinni að draga sig úr verkefnum sem tengist ekki kjarnastarfsemi skólans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×