Erlent

Pútín og Medvedev hrósa Gorbatsjov

Gorbatsjov hefur harðlega gagnrýnt rússneska ráðamenn undanfarið. nordicphotos/AFP
Gorbatsjov hefur harðlega gagnrýnt rússneska ráðamenn undanfarið. nordicphotos/AFP
Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti kallaði Mikhaíl Gorbatsjov, síðasta leiðtoga Sovétríkjanna, á sinn fund í gær til að tilkynna að hann hlyti æðstu viðurkenningu rússneska ríkisins, orðu heilags Andrésar, sem er höfuðdýrlingur Rússa.

Gorbatsjov hefur undanfarið gagnrýnt harðlega núverandi ráðamenn í Rússlandi, bæði Pútín og Medvedev.

Hann segir Rússland vera ekkert annað en „eftirlíkingu lýðræðisríkis", þar sem hvorki þingið né dómstólarnir séu óháðir stjórninni. Stjórnarflokk Pútíns segir hann sömuleiðis vera „lélega eftirmynd" sovéska Kommúnistaflokksins.

Þeir Pútín og Medvedev hafa þó látið þessa gagnrýni lítt á sig fá.

Medvedev sagði að Gorbatsjov hefði haft erfitt verk með höndum, að stjórna Sovétríkjunum á lokasprettinum. „Það væri hægt að meta það öðru vísi, en þetta var þung byrði," hnýtti Medvedev þó við orð sín.

Pútín hrósaði Gorbatsjov í heillaóskaskeyti í gær, og sagði hann einn helsta stjórnmálamann samtímans, sem hefði mikil áhrif á framvindu mannkynssögunnar.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×