Innlent

Verkalýðsforkólfur fékk afabarn 1. maí

Það er ekki á hverjum degi sem verkalýðsforkólfur fær í hendurnar nýfætt barnabarn á baráttudegi verkalýðsins. mynd/skessuhorn
Það er ekki á hverjum degi sem verkalýðsforkólfur fær í hendurnar nýfætt barnabarn á baráttudegi verkalýðsins. mynd/skessuhorn
„Lítil maístjarna er fædd,“ segir Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforkólfur á Akranesi, sem mun seint gleyma 1. maí þetta árið. Erfið staða á vinnumarkaði og yfirvofandi verkföll eru ekki ástæðan heldur lítil stúlka sem fæddist á fæðingardeildinni á Akranesi þá um morguninn. Stúlkan er þriðja barnabarnið hans en sonur Vilhjálms, Óttar Örn, og kona hans, Íris Gefnardóttir, bættu við fríðan hóp barna og barnabarna Vilhjálms og eiginkonu hans, Þórhildar B. Þórisdóttur, á sjálfan baráttudag verkalýðsins.

„Þetta gerði þennan mikilvæga dag enn stórkostlegri en áður. Sennilega ánægjulegasti baráttudagur sem ég hef lifað,“ segir Vilhjálmur. „Það er ekki dónalegt að keyra tengdadóttur sína upp á fæðingardeild, fara síðan heim í tvo klukkutíma til að vinna í ræðunni, og þegar hún var um það bil að verða tilbúin hringdi síminn og mér sagt að fædd væri heilbrigð lítil stúlka. Stórkostlegt,“ segir Vilhjálmur, sem er vart kominn niður úr skýjunum eftir helgina.

Vilhjálmur segir að þeirri stuttu hafi legið á, enda hafi menn ekki átt von á henni fyrr en 4. maí. „En það er öruggt að þessi er með hjartað á réttum stað og hún ákvað að flýta sér í heiminn á hátíðisdegi,“ segir Vilhjálmur og viðurkennir að hann bindi sérstakar vonir við þá stuttu. „Ætli hún verði ekki mikil baráttukona þegar hún fer að láta þessi mál til sín taka. Ef henni kippir í kynið gæti farið svo að hún taki við keflinu með einhverjum hætti,“ segir Vilhjálmur, sem er formaður Verkalýðsfélags Akraness. Vilhjálmur segir að góðu fréttirnar endi ekki hér. Von er á fjórða barnabarninu í lok mánaðarins. Þá mun yngsti sonurinn af fjórum, Allan Freyr, fjölga í hópnum.

Vilhjálmur er orðinn þjóðkunnur fyrir baráttu sína fyrir réttindum verkafólks og þá ekki síst fyrir að segja hlutina eins og þeir eru. Hann hefur starfað sem formaður verkalýðsfélagsins síðan 2003 og er níundi formaður þess frá stofnun 1924. svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×