Lífið

Fyrrum rappari fær uppreisn æru

„Ég er ánægður með þetta. Lengi lifi grínið," segir grínistinn Steindi Jr. sem er á meðal þeirra sem tilnefndir eru til hlustendaverðlauna FM 957.

Tilnefningar til hlustendaverðlaunanna hafa verið kunngjörðar. Rapparinn Erpur Eyvindarson fær alls fimm tilnefningar og söngvarinn Friðrik Dór fylgir fast á eftir með fjórar, eins og poppkóngurinn Páll Óskar. Athygli vekur að grínistinn Steindi Jr. er tilnefndur sem flytjandi ársins, en hann hefur átt nokkur gríðarlega vinsæl lög sem hafa um leið verið grínatriði í þættinum Steindinn okkar.

„Ég er gamall tónlistarmaður. Ég var rappari í mörg ár. Svo höfum við átt mörg af vinsælustu lögum landsins síðustu tvö ár. Þannig að mér finnst skrýtið að ég sé ekki tilnefndur í fleiri flokkum," segir Steindi laufléttur. „Ég á þetta fyllilega skilið!" Rapparinn Steindi fær því uppreisn æru fyrir tilstilli grínistans.

En hvort langar þig meira í hlustendaverðlaun FM 957 eða Eddu? „Í augnablikinu eru það klárlega hlustendaverðlaunin þar sem það er styttra í þau," segir Steindi. „Ég veit ekki hvort ég taki mikið mark á Eddunni í dag þar sem ég varð fyrir vonbrigðum með að Mér er gamanmál vann ekki í flokknum skemmtiþáttur ársins." Steindi hvetur að lokum fólk til að fara á netið og kjósa sig. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×