Innlent

Fréttaskýring: Sagan geymir 600 hvítabirni

Hælavíkurbangsinn Fjórða dýrið sem vitað er um að hafi gengið hér á land á síðustu þremur árum.mynd/lhg
Hælavíkurbangsinn Fjórða dýrið sem vitað er um að hafi gengið hér á land á síðustu þremur árum.mynd/lhg
Eru tíðar komur hvítabjarna til landsins undanfarin þrjú ár að einhverju leyti sérstakar í sögulegu tilliti?

Undanfarin þrjú ár hafa fjórir hvítabirnir komið hingað til lands og allir verið skotnir. Í öll skiptin hefur mikil umræða verið um það í samfélaginu hvort réttlætanlegt sé að drepa dýrin eða hvort ástæða sé til að reyna að fanga þá lifandi og sleppa þeim í sínu náttúrulega umhverfi á Grænlandi. Eins er mikið rætt um að komur dýranna séu að einhverju leyti sérstakar og þá oft vísað til breytinga í náttúrunni vegna hlýnandi veðurfars. En er það svo?

Ævar Petersen, dýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, hefur safnað upplýsingum um komur hvítabjarna til landsins um árabil. Hann segir það rangt að á þremur árum hafi komið fleiri birnir en næstu sjö áratugina á undan, eins og haldið hefur verið fram opinberlega. „Á síðastliðnum árum hafa komið fjórir birnir en í sjötíu árin þar á undan er vitað um alls þrjátíu dýr. Þar af voru fjórtán á sjó úti, aðallega á hafís, en sextán fundust uppi í landi. Þó er það rétt að meðaltalið yfir síðustu sjötíu árin er björn annað hvert ár, en árlega síðustu fjögur ár. En slíkur samanburður er varla raunhæfur," segir Ævar.

Spurður hvort finna megi dæmi um tíðar hvítabjarnakomur áður í sögunni; tímabil sem sérstaklega skera sig úr segir Ævar að svo sé vissulega. „Árið 1918, og frostaveturinn mikli, var mjög sérstakt enda hafís landfastur lengi en þá komu þrjátíu hvítabirnir. Sama má segja um tímabilið 1879 til 1882 en þá komu alls rétt yfir hundrað birnir, þar af sáust tólf saman. Árin 1274-75 komu um fimmtíu dýr; 1615 komu ellefu; 1621 komu 25; 1705 tíu dýr og 1745 komu þrjátíu svo eitthvað sé nefnt."

Ævar vill eindregið nota orðið hvítabjörn yfir dýrin, ekki ísbjörn sem er þýðing úr dönsku. „Hvítabjörn er þekkt í íslensku að minnsta kosti frá 12. öld en ísbjörn kom fyrst fram í rituðu máli snemma á 19. öld og var í raun lítið sem ekkert notað fyrr en á 20. öld. Orðið bjarndýr var mikið notað á 19. öld um hvítabirni en það er núna yfirleitt haft sem almennt heiti yfir birni – hvíta, brúna og svarta," segir Ævar, sem hefur fundið heimildir um 600 hvítabirni á Íslandi í um 300 tilvikum og stöðugt bætast við upplýsingar. Hann segir ljóst að víða leynist upplýsingar í dagbókum, ævisögum, héraðslýsingum auk annarra heimilda.

Því er ástæða fyrir áhugafólk um náttúruna og komur dýranna til að deila upplýsingum með Ævari svo fyllri mynd náist af þessum hluta íslenskrar náttúrusögu.

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×