Menning

Ekkja Stiegs Larsson í Norræna húsinu

Eva Gabrielsson Bjó með Stieg Larsson áratugum saman þar til hann féll frá 2004. Hún ræðir meðal annars samband þeirra og erfðadeiluna í kvöld.
Eva Gabrielsson Bjó með Stieg Larsson áratugum saman þar til hann féll frá 2004. Hún ræðir meðal annars samband þeirra og erfðadeiluna í kvöld.
Sænski rithöfundurinn Eva Gabrielsson verður gestur á höfundakvöldi í Norræna húsinu í kvöld.

Gabrielsson er ekkja Stiegs Larsson, höfundar Millennium-þríleiksins sem hefur farið sigurför um heiminn. Eftir fráfall Larssons lenti Gabrielsson í deilum við fjölskyldu hans um réttinn á bókum hans. Parið hafði verið í sambúð um áratuga skeið en þar sem þau gengu aldrei formlega í hnapphelduna erfði fjölskylda Larssons réttinn á bókum hans með tilheyrandi auðæfum.

Gabrielsson ræðir meðal annars þetta mál í spjalli við Þóru Arnórsdóttur í Norræna húsinu í kvöld. Gabrielsson hefur skrifað tvær bækur tengdar þessu máli, sem báðar komu út í fyrra: „Sambo: ensammare än du tror“ sem fjallar um vandamál tengd reglum eða lögum um sambúð og bókina: „Millennium, Stieg & jag“.

Í síðarnefndu bókinni fjallar Gabrielsson um hvernig Millennium-trílógían varð til, tímann fyrir andlát Stiegs Larsson og erfðadeiluna við ættingja hans. Þar kemur einnig fram að ýmislegt í bókunum megi rekja til sambands þeirra; hún geti oft ekki sagt með vissu hvað sé nákvæmlega frá honum komið og hvað frá henni. Þá gagnrýnir hún „Stieg Larsson iðnaðinn“, sem hún kallar svo, sem hefur stigmagnast með árunum, ekki síst í Bandaríkjunum, og nær senn hámarki með þremur Hollywood-myndum byggðum á þríleiknum. Norræna húsið og Bjartur standa saman að komu Gabrielsson hingað til lands.

Höfundakvöld Norræna hússins eru á hverju fimmtudagskvöldi til 9. júní næstkomandi. Meðal væntanlegra gesta eru Svíinn Kasja Ingemarsson, Naja Marie Aidt frá Danmörku og norsk-danski höfundurinn Beate Grimsrud, sem þótti líkleg til að hreppa Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs á dögunum.

Dagskráin hefst klukkan 20 í kvöld og er öllum opin.- bs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×