Menning

Að fanga hverfandi andrá

Harpa Árnadóttir. Mynd/Valgarður.
Harpa Árnadóttir. Mynd/Valgarður.
Núið og hverfulleiki andartaksins eru inntak bókverksins Júní eftir Hörpu Árnadóttur myndlistarmann. Bókin er nátengd sýningunni Mýraljós en báðar byggja þær á eins konar dagbókarbrotum Hörpu frá dvöl hennar á Bæ á Höfðaströnd í fyrrasumar.

„Það var ekki meiningin í upphafi að þetta yrði bókverk. En þegar uppi var staðið hafði svo mikið efni raðast upp á vinnustofuvegginn hjá mér, með frekar línulegri frásögn og eitt leiddi af öðru," segir Harpa Árnadóttir myndlistamaður um tilurð bókarinnar Júní sem kemur út á vegum Crymogeu.

Bókin samanstendur af textabrotum og myndum, texti sem oft er í raun mynd og unnin er upp úr eins konar dagbókarfærslum Hörpu þegar hún dvaldi á Bæ á Höfðaströnd í Skagafirði í boði Steinunnar Jónsdóttur fyrir ári síðan. Útgáfa bókarinnar er nátengd sýningunni Mýrarljósi í Listasafni ASÍ, sem er hluti af Listahátíð í Reykjavík og byggir á sömu vinnubókum.

„Þetta eru persónulegar og hversdagslegar hugleiðingar sem endurspegla augnablik sem ég upplifði og minningar sem streyma fram. Svona eins og að hugsa beint á blöðin. Það má kannski segja að þetta sé tilraun til að fanga andblæ sumarsins, ilm, birtu og veðrabrigði, að lýsa hverfandi andrá; hvernig maður upplifir augnablikið og rennur saman við það. Þetta snýst um að lifa í núinu og að njóta þess."

Mikil vinna var lögð í hönnun og frágang bókarinnar, sem líkist innbundu safni nýgerðra vatnslitamynda og textablaða sem smeygt hefur verið inn í möppu. Um hönnun sáu Hildigunnur Gunnarsdóttir og Snæfríð Þorsteins sem unnið hafa að unnið að fleiri bókum Crymogeu, þar á meðal hina víðfrægu Flora Islandica eftir Eggert Pétursson.

bergsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×