Skoðun

Að vera foreldri

Hér á árum áður var komið í veg fyrir að konur með þroskahömlun eignuðust börn með því að þær voru gerðar ófrjóar án vitundar og vilja þeirra sjálfra. Þar með voru brotin á þeim þau sjálfsögðu mannréttindi sem fela í sér að eiga börn og ráða yfir sínum líkama sem er það persónulegasta sem maður á.

Í 23. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um virðingu fyrir heimilis- og fjölskyldulífi fatlaðra. Einnig að fatlað fólk eigi sama rétt og annað fólk til að halda frjósemi sinni, giftast og stofna fjölskyldu.

Sjálf á ég son sem er 8 ára. Hann er sú besta gjöf sem ég hef eignast. Það var ekki sjálfgefið fyrir mig að eignast barn frekar en marga í minni stöðu. Sumir vildu að ég léti eyða fóstrinu, en þeir sem voru búnir að þekkja mig í mörg ár höfðu fulla trú á mér til móðurhlutverksins.

Það hefur komið berlega í ljós að enginn sérstakur stuðningur er fyrir hendi fyrir fjölskyldur eins og mína. Aðeins er stuðst við lög sem gera félagsþjónustu sveitarfélaganna skylt að veita fólki sem á við félagslega erfiðleika eða fötlun að stríða aðstoð. Þar má nefna liðveislu, stuðningsfjölskyldu, tilsjón og svo framvegis. Þetta er bara þjónusta eins og aðrir í svipaðri félagslegri stöðu eiga rétt á. En þetta er ekki sú þjónusta sem í rauninni hentar fyrir foreldra sem eru með þroskafrávik. Þar þarf annars konar þjónustu og það þarf að vera mjög auðskilið hvert er markmiðið með þjónustunni.

Ég hef verið í góðu samstarfi við kerfið en það hefur verið erfitt að koma nákvæmlega til móts við fjölskylduna á hverjum tíma þegar t.d. koma erfið tímabil. Ég tel mikilvægt að það séu haldnir samráðsfundir með reglulegu millibili auk þess sem við fáum notendastýrða persónulega aðstoð til að læra af. Nú sé ég sjálf um að ráða starfsfólk inn á mitt heimili og með því vona ég að þjónustan verði betri okkur fjölskyldunni til heilla.

Vandinn er að við höfum skilgreint að seinfærir foreldrar séu félagsleg hindrun samfélagsins og þannig hefur verið tekið á málunum. Við höfum gleymt að þær hindranir væru ekki til staðar ef við fengjum viðeigandi stuðning á hverjum tíma hvað líf okkar varðar. Það er aðalatriðið að við gleymum ekki að hindranir koma frá umhverfinu sem við búum í og þeirri staðalímynd sem samfélag okkar byggir á.


Tengdar fréttir

Að flytja að heiman

Þegar ég flutti að heiman flutti ég í íbúð með annarri konu. Okkur dreymdi um að við mundum búa saman þangað til ég færi á elliheimili. En hún flutti og fór í sambýli. Svo fékk ég aðra konu til að búa með mér en það gekk ekki upp. Nú bý ég ein í íbúð á elleftu hæð með fallegu útsýni.

Boðberar mannréttinda

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af Íslands hálfu fyrir rúmum fjórum árum. Samningurinn hefur þó ekki enn verið fullgiltur.

Einkalíf fatlaðra

Ég er einn af sendiherrum mannréttindasamnings Sameinuðu þjóðanna fyrir fatlað fólk. Fatlað fólk er jafnmismunandi og það er margt. Sjálfur er ég öryrki og hef alltaf unnið fyrir mínum launum þrátt fyrir hryggskekkju, athyglisbrest o.fl.

Menntun

Ég var í rauninni ekki velkominn í háskólanám. Það var ekki gert ráð fyrir mér af því að ég er með fötlun.

Sérstakir sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Árið 2007 var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks undirritaður á Íslandi. Sá samningur hefur ekki enn verið lögfestur. Að undanförnu hafa sjö einstaklingar sótt námskeiðið "Sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“. Námskeiðið er samstarfsverkefni Landssamtakanna Þroskahjálpar og Fjölmenntar sem er símenntunar- og þekkingarmiðstöð.

Sjálfstætt líf

Flest viljum við vera þátttakendur og tilheyra samfélagi. Samfélag getur þýtt margt, hverfið sem við búum í, skólinn er samfélag nemenda, starfsfólks og foreldra skólans og kirkjan er samfélag þeirra sem hana sækja. Okkur þykir sjálfsagt að tilheyra samfélagi og hafa rétt á að taka þátt í því. Flestir hugsa sjaldnast um það hvert samfélag okkar er og á hvaða þátt við búum í því. Við erum bara hluti af samfélaginu án þess að spá neitt meira í það.




Skoðun

Sjá meira


×