Erlent

Sex flokka stjórnin tekin við völdum

Jyrki Katainen forsætisráðherra ásamt nokkrum af meðráðherrum sínum á leið til forsetahallarinnar í Helsinki í gær.nordicphotos/AFP
Jyrki Katainen forsætisráðherra ásamt nokkrum af meðráðherrum sínum á leið til forsetahallarinnar í Helsinki í gær.nordicphotos/AFP
Jyrki Katainen hlaut í gær stuðning 118 þingmanna gegn 72 til myndunar sex flokka ríkisstjórnar, sem hann boðaði í síðustu viku að yrði mynduð.

Ásamt Þjóðstjórnarflokki Katainens, sem er hægriflokkur, eiga Sósíaldemókratar, Vinstribandalagið, Græningjar, Sænski þjóðarflokkurinn og Kristilegir demókratar aðild að stjórninni.

Stefna stjórnarflokkanna sex er afar mismunandi, því þarna eru innbyrðis jafnt hægri sem vinstri flokkar. Meginforsenda stjórnarsamstarfsins virðist hafa verið sú helst að halda Sönnum Finnum, hinum umdeilda stjórnmálaflokki vinstri þjóðernissinna, utan við stjórnina.

Sannir Finnar fengu mikið fylgi í þingkosningunum, sem haldnar voru fyrir tveimur mánuðum. Þeir eru nú þriðji stærsti flokkurinn á þingi, með 39 þingmenn af 200, næst á eftir Þjóðstjórnarflokki Kaitanens, sem er með 44 þingsæti, og Sósíaldemókrötum, sem eru með 42 þingmenn.

Sannir Finnar hafa staðið hart gegn því að Finnland taki þátt í kostnaði við fjárhagslegar björgunaraðgerðir Evrópusambandsins vegna skuldavanda Grikklands og fleiri evruríkja.

Öll aðildarríki Evrópusambandsins þurfa að standa sameiginlega að þeim björgunaraðgerðum, þannig að andstaða finnsku stjórnarinnar, væru Sannir Finnar innanborðs, myndi hleypa þeim aðgerðum í uppnám.

Katainen sagði stjórnarmyndunarviðræðurnar hafa verið erfiðar og viðurkenndi að líklega verði stjórnarsamstarf flokkanna sex ekki auðvelt.

Tveir þingmanna Vinstribandalagsins greiddu atkvæði gegn stjórninni í gær, þrátt fyrir að flokkur þeirra eigi aðild að stjórnarsamstarfinu.

Tarja Halonen, forseti Finnlands, sagði í ávarpi sínu til nýju stjórnarinnar að hún yrði að taka tortryggni kjósenda, sem kom fram í þingkosningunum fyrir tveimur mánuðum, alvarlega.

Auk Sannra Finna er Miðflokkurinn utan stjórnarinnar, en Miðflokkurinn er bændaflokkur á miðju pólitíska litrófsins. Hann fékk 35 þingsæti í kosningunum og er þar með fjórði stærsti flokkurinn á þingi.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×