Erlent

Leita leiða til bjargar evrunni

Georgios Papandreú Forsætisráðherra Grikklands kemur á leiðtogafundinn í Brussel. Fréttablaðið/AP
Georgios Papandreú Forsætisráðherra Grikklands kemur á leiðtogafundinn í Brussel. Fréttablaðið/AP
Fjárhagsvandi Grikkja skyggði á öll önnur mál á leiðtogafundi Evrópusambandsins sem hófst í Brussel í gær. Mestur tíminn fór í að leita leiða til að forða Grikkjum undan gjaldþroti og bjarga evrunni, hinni sameiginlegu mynt sautján Evrópusambandsríkja.

Beðið er ákvarðana frá Grikklandi, þar sem stjórnvöld reyna enn að afla sér stuðnings þingsins við óvinsælar aðhaldsaðgerðir, sem fela í sér bæði skattahækkanir og niðurskurð á ríkisútgjöldum.

Leiðtogar Evrópusambandsríkjanna áttu meðal annars fund í Brussel með Antonis Samaras, leiðtoga grísku stjórnarandstöðunnar, sem hefur tekið afar illa í aðhaldsaðgerðir stjórnarinnar.

„Það er mjög mikilvægt að enginn stjórnmálaleiðtogi í Grikklandi segi grísku þjóðinni að hún geti stytt sér leið,“ sagði Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, þegar hann kom til fundarins í Brussel í gær.

Samaras gaf hins vegar ekkert tilefni til bjartsýni um að almenn samstaða næðist á gríska þinginu.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagðist ekki eiga von á að neinar afgerandi ákvarðanir um Grikkland yrðu teknar á leiðtogafundinum, sem heldur áfram í dag.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×