Erlent

Grikkland enn á ný í brennidepli hjá ESB

Vel fór á með leiðtogunum þrátt fyrir alvarlegan undirtón umræðnanna.
Vel fór á með leiðtogunum þrátt fyrir alvarlegan undirtón umræðnanna. Mynd/AP
Leiðtogaráðstefnu Evrópusambandsins lauk í gær eftir tveggja daga fundarhöld. Enn einu sinni skyggðu fjárhagsvandræði Grikklands á önnur umræðuefni en ræddar voru leiðir til að koma ríkinu til hjálpar og verja evruna.

Niðurstaða leiðtoganna var að veita Grikkjum aðgang að milljörðum evra úr þróunarsjóðum sambandsins. Vonast þeir til þess að aðstoðin auðveldi grísku ríkisstjórninni glímuna við fjármálakreppuna og geri henni kleift að koma óvinsælum aðhaldsaðgerðum í gegnum þingið.

Þróunarsjóðir ESB eru ætlaðir til að styrkja innviði vanþróaðri ríkja sambandsins. Grikkir eiga heimtingu á fimmtán milljörðum evra á næstum tveimur árum en hafa átt í erfiðleikum með að finna verkefni sem uppfylla skilyrði til veitinga úr sjóðnum. Á þeim skilyrðum verður nú slakað en ólíkt þeim neyðar-lánum sem gríska ríkið hefur fengið þarf ekki að borga styrkina til baka.

Gríska skuldakreppan hefur náð nýju hámarki á undanförnum vikum. Þrátt fyrir stór neyðar-lán frá ríkjum evrusvæðisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er ljóst að enn skortir ríkið tugi milljarða evra til að eiga fyrir skuldum.

Á fundinum var einnig gengið frá ráðningu ítalska hagfræðingsins Mario Draghi í embætti bankastjóra Evrópska seðlabankans. Þá var staðfest að Króatíu mun standa til boða að ganga í sambandið 1. júlí 2013 og verða 28. ríki sambandsins.

Þá var samþykkt að þróa sameiginlegar reglur um landamæraeftirlit innan sambandsins. Lýstu margir leiðtoganna yfir áhyggjum af því að verið væri að ganga gegn meginreglunni um frjálsa för innan sambandsins, en einungis skal grípa til virks landamæraeftirlits þegar önnur ráð hefur þrotið.

magnusl@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×