Skoðun

Atvinnumál fatlaðra

Ína Valsdóttir skrifar
Fyrir ekki svo mörgum árum var lítill sem enginn stuðningur fyrir fatlaða og þroskahamlaða á vinnumarkaðinum. Oft voru notuð orð sem okkur finnst niðrandi um þennan hóp eins og t.d. fávitar.

Það litla sem var í boði var helst verndaðir vinnustaðir og hæfingarstöðvar og örfáir vel meinandi atvinnurekendur sem voru til í að ráða fólk með þroskahömlun í vinnu. Þá voru líka stofnanir eins og Kópavogshæli, þar sem fólk með þroskahömlun var í sólarhringsvistun. En í dag er vinnumarkaðurinn meira opinn fyrir fatlaða og fólk með þroskahömlun.

Stofnun ÁtaksÁtak, félag fólks með þroskahömlun, var stofnað árið 1993 til þess að berjast fyrir hagsmunamálum þess fólks. Hlutverk félagsins er:

Ÿ Að gæta að hagsmunamálum félagsmanna sinna.

Ÿ Að tryggja réttindi fólks með þroskahömlun.

Ÿ Að tryggja lífsgæði fólks með þroskahömlun.

Ÿ Að minnka fordóma í garð fólks með þroskahömlun.

Ÿ Að fólk með þroskahömlun geti talað fyrir sig sjálft.

Ÿ Að fólk með þroskahömlun vinni meira að réttindamálum sínum sjálft

Fyrsti fundur félagsins var um atvinnumál. Á þann fund kom fólk frá verkalýðsfélögum til að ræða um rétt fólks sem starfaði á vernduðum vinnustöðum til inngöngu í stéttarfélög, veikindaréttindi, rétt til að leigja sumarhús og fleira.

Í stefnuskrá Átaks stendur m.a.:

Ÿ Átak vill að atvinna með stuðningi (AMS) verði efld.

Ÿ Allir sem vilja fái vinnu á almennum vinnumarkaði, með eða án stuðnings.

Ÿ Allir hafi sama rétt í verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðum.

Síðan félagið var stofnað árið 1993 hafa margir verndaðir vinnustaðir gert samkomulag við stéttarfélög vegna starfsmanna sinna.

Atvinna með stuðningi – AMSÁ árunum 1997-1999 var stofnaður áhugamannahópur atvinnu með stuðningi (AMS). Atvinnuleitin samkvæmt AMS getur tekið töluverðan tíma, sérstaklega þar sem oftast er verið að leita að einhverju ákveðnu starfi fyrir ákveðinn einstakling. Eftir að starfið er fundið þarf síðan að kynnast vinnustaðnum og skipuleggja starfið eftir getu einstaklingsins.

Eitt af því mikilvægasta í AMS er eftirfylgdin eftir að búið er að ráða í starfið. Eftirfylgdin er oft mikil í upphafi og minnkar síðan eftir því hve fljótt einstaklingurinn lærir starfið. Ég hef sjálf þurft að nota þessa þjónustu en hef líka sótt um vinnu sjálf. Ég vann hjá Nóa/Síríus í fjórtán ár og líkaði það frábærlega. Ég fór síðan að vinna hjá Póstinum og vann einnig í Öskjuhlíðarskóla sem stuðningsfulltrúi í lengdri viðveru. Þar var ég mjög ánægð. Það voru mikil vonbrigði að þegar ÍTR tók við gæslunni í lengdu viðverunni var mér einni sagt upp.

Í 27. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um atvinnumál. Þar kemur fram að almennur vinnumarkaður skal vera aðgengilegur fötluðu fólki. Til þess að það geti orðið þarf viðeigandi hagræðingu, meðal annars þarf að tryggja:

Ÿ Bann við mismunun vegna fötlunar.

Ÿ Jöfn tækifæri og sömu laun fyrir sömu vinnu.

Ÿ Vernd gegn áreitni.

Ÿ Vernd stéttarfélaga.

Ÿ Starfshæfingu á vinnustöðum.

Ÿ Sömu tækifæri til starfsframa.

Ÿ Vinnu hjá ríki og sveitarfélögum.

Ÿ Stefnumótun og aðgerðir sem tryggja allt þetta.

Framtíðin:Ég er bjartsýn á framtíðina. Ég held að samningur Sameinuðu þjóðanna geti breytt miklu ef allir fara eftir honum og vona að allir fatlaðir og fólk með þroskahömlun geti fengið vinnu með eða án stuðnings, hafi eitthvert val um hvar þau vinna og meiri fjölbreytileika í atvinnutækifærum. En við verðum sjálf að standa vörð um réttindi okkar með hjálp góðs fagfólks sem við virðum mikils.


Tengdar fréttir

Boðberar mannréttinda

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var undirritaður af Íslands hálfu fyrir rúmum fjórum árum. Samningurinn hefur þó ekki enn verið fullgiltur.

Sérstakir sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Árið 2007 var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks undirritaður á Íslandi. Sá samningur hefur ekki enn verið lögfestur. Að undanförnu hafa sjö einstaklingar sótt námskeiðið "Sendiherrar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks“. Námskeiðið er samstarfsverkefni Landssamtakanna Þroskahjálpar og Fjölmenntar sem er símenntunar- og þekkingarmiðstöð.




Skoðun

Sjá meira


×