Innlent

Ljúka ekki tannviðgerðum

Samþykktar voru gjaldfrjálsar tannviðgerðir fyrir 1.056 börn á aldrinum þriggja til átján ára. Sótt um fyrir 1.335 börn. Afleit tannheilsa hjá mörgum barnanna. Ráðuneytið skoðar leiðir til þess að ljúka viðgerðunum.
Samþykktar voru gjaldfrjálsar tannviðgerðir fyrir 1.056 börn á aldrinum þriggja til átján ára. Sótt um fyrir 1.335 börn. Afleit tannheilsa hjá mörgum barnanna. Ráðuneytið skoðar leiðir til þess að ljúka viðgerðunum.
Tryggingastofnun samþykkti umsóknir um gjaldfrjálsar tannviðgerðir fyrir 1.056 börn tekjulágra foreldra. Ekki mun takast að ljúka viðgerð á tönnum allra þessara barna í sumar, að því er Teitur Jónsson, forseti tannlæknadeildar Háskóla Íslands greinir frá. Átaksverkefni velferðarráðuneytisins er tímabundið og fer fram á tannlæknadeildinni í Læknagarði meðan hlé er á kennslu.

„Það hefur ræst úr með þátttöku tannlækna í verkefninu en það mun ekki takast að klára allt sem þarf að gera áður en kennsla hefst í tannlæknadeild í lok ágúst og samningurinn rennur út. Haldið verður áfram að minnsta kosti út næstu viku. Eftir sumarleyfi þurfum við svigrúm til þess að undirbúa deildina undir kennslu sem hefst í lok ágúst,“ segir Teitur.

Ástandið á tönnum barnanna sem þegar hafa komið í skoðun hefur verið mjög mismunandi. „Þetta er allt frá því að vera minniháttar vandamál upp í afleita tannheilsu og miklar skemmdir. Það eru fjöldamörg dæmi um að börn hafi komið með margar skemmdar tennur, jafnvel 20 alls. Það eru einnig dæmi þess að draga hafi þurft fullorðinstennur úr börnum.“

Átaksverkefnið nær til barna á aldrinum þriggja til 18 ára. „Það kemur mér eiginlega á óvart að fleiri tekjulágir skuli ekki hafa sótt um gjaldfrjálsar tannviðgerðir fyrir börnin sín. Þetta eru 16 árgangar og í hverjum árgangi eru um fjögur til fimm þúsund börn,“ bendir Teitur á en alls var sótt um fyrir 1.335 börn.

Hann telur að takast muni að skoða tennur meirihluta þeirra barna sem fengið hafa samþykki Tryggingastofnunar í sumar.

Samningurinn um viðgerðirnar gildir til 26. ágúst. Þar sem ekki mun takast að ljúka tannviðgerðunum fyrir þann tíma er óljóst hvernig þjónusta á þau börn sem standa út af.

Helga Ágústsdóttir, deildarstjóri í velferðarráðuneytinu, segir menn vera að huga að úrræðum.  „Ráðuneytið er að skoða leiðir til að bregðast við þessu,“ segir hún.

Sjúkratryggingar Íslands hafa nú framlengt samning við tannlækna um forvarnarskoðanir þriggja, sex og 12 ára barna til næstu áramóta.

ibs@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×