Innlent

Flestir ofbeldismenn láta kröfurnar fyrnast

Halldór Þormar Halldórsson. Meginreglan er sú að rukka ofbeldismenn um bætur og fáir sleppa við rukkun.
Halldór Þormar Halldórsson. Meginreglan er sú að rukka ofbeldismenn um bætur og fáir sleppa við rukkun.
Flestir dæmdir ofbeldismenn sem greiða eiga fórnarlömbum sínum bætur láta kröfurnar fyrnast án þess að greiða, segir Halldór Þormar Halldórsson, lögfræðingur hjá Sýslumanninum á Siglufirði.

Halldór, sem hefur umsjón með greiðslu bótanna, segir meginregluna þá að allir séu rukkaðir. „Við tilkynnum viðkomandi að við eigum kröfuna og bendum honum á að hann geti óskað eftir því að verða ekki rukkaður hafi hann eitthvað fram að færa. Ef maður hefur verið undir tvítugu þegar hann framdi brotið verður hann að sýna vottorð um atvinnu eða skólavist og sakavottorð til þess að fá lækkun á greiðslu. Hún kemur ekki til álita ef viðkomandi er í áframhaldandi brotastarfsemi.“

Að sögn Halldórs sleppa sárafáir við innheimtu. „Upphæðin er stundum lækkuð um einn þriðja eða helming. Kröfurnar fyrnast á tíu árum. Það er mjög gott að menn geti samið um einhverja greiðslu en flestir láta kröfurnar fyrnast án þess að greiða.“

Mál sem eru til innheimtu nú eru alls 306 og nemur heildarfjárhæðin 266.487.729 krónum. Ofbeldismennirnir sem skulda þessa upphæð eru 247 talsins.

Fjöldi mála frá árinu 2008 er 436. Uppgreidd mál á þessu tímabili eru 130.

- ibs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×