Innlent

Skráningu fornminja áfátt

Reykjanesið telst til álitlegustu virkjunarkosta í 2. áfanga rammaáætlunar. Í Svartsengi - Eldvörpum eru einstakar friðlýstar minjar eftir útilegumenn sem mikilvægt er að varðveita til framtíðar. Við Krýsuvík er einnig að finna friðlýst minjasvæði.
Reykjanesið telst til álitlegustu virkjunarkosta í 2. áfanga rammaáætlunar. Í Svartsengi - Eldvörpum eru einstakar friðlýstar minjar eftir útilegumenn sem mikilvægt er að varðveita til framtíðar. Við Krýsuvík er einnig að finna friðlýst minjasvæði. Mynd/heiða
Ísland, eitt Norðurlandaríkjanna, hefur ekki lokið tæmandi fornleifaskráningu. Við gerð 1. og 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða vegna orkunýtingar þurftu fornleifafræðingar því að reiða sig á heimildarskráningu fornleifafræðinga 19. aldar. Minjayfirvöld telja sig hafa litlar forsendur til að svara því hvaða menningarverðmæti verði fyrir skaða við þá virkjunarkosti sem áætlunin fjallar um.

Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, segir stöðuna í raun sorglega og að ástæðan fyrir því hversu aftarlega Íslendingar eru við skráningu fornminja sé að ekki hafi verið veitt nauðsynlegu fjármagni til slíkrar vinnu. Tími og peningar segir Kristín að sé ekki sérstakt vandamál.

Athugun Fornleifaverndar fyrir nokkrum árum leiddi í ljós að um fimm ár þarf til að ljúka fullnaðarskráningu og áætlaður kostnaður þeirrar vinnu var 400 milljónir. Hún gagnrýnir jafnframt hart það misvægi sem er á fjárframlögum ríkisins. „Af því fjármagni sem ríkið ætlar til umhverfisins fá minjarnar þrjú prósent. Og það er merkileg staðreynd þegar við höfum reynt um árabil að fá fjármagn til að ljúka grundvallarskráningu fornminja," segir Kristín.

Náttúra og minjarÍ greinargerð sem Kristín skrifaði, og fylgir skýrslu verkefnastjórnarinnar, er bent á að horfa beri á umhverfi og landslag í víðara samhengi en gert hefur verið og að minjar verði teknar inn til jafns við náttúru í allri framtíðarvinnu varðandi umhverfi landsins og nýtingar þess. Grunnforsenda þess að hægt sé að taka ákvarðanir um menningararfinn sé að þekkja hann. „Það gefur auga leið að til þess að vernda menningarminjar þurfum við að vita hvar þær eru, hverjar þær eru og í hvernig ástandi þær eru," skrifar Kristín.

Gróflega er áætlað að fornleifar á Íslandi, minjar sem eru 100 ára og eldri, gætu verið um 200 þúsund. Þær dreifast um landið allt, jafnt um byggð sem óbyggðir.

FornfræðingarStór hluti þeirra svæða sem komu til umfjöllunar í 1. áfanga rammaáætlunar var óskráður og er það enn nú þegar 2. áfanga er lokið og til stendur að undirbúa þingsályktunartillögu um hvernig nýta skuli náttúruna með vali á virkjunarkostum.

Við mat á svæðum þar sem gufuaflsvirkjanir koma til greina höfðu fornleifafræðingar í sumum tilfellum ekki annað á milli handanna en skráðar heimildir fornfræðinga 19. aldar þar sem grunnrannsókn hefði verið nauðsynleg. Þar sem vatnsaflsvirkjanir koma til greina höfðu fornleifafræðingar lítið sem ekkert að styðjast við.

„Það er ótækt og óforsvaranlegt að fornleifafræðingum á 21. öld sé gert að vinna við þessar aðstæður," segir Kristín og bætir við að minjayfirvöld hafi ekki forsendur að óbreyttu til að meta hvort menningarminjar verði fyrir skaða vegna virkjanaframkvæmda sem til greina komi.

FerðaþjónustaFornleifar og menningarlandslag eru þáttur í menningarferðaþjónustu allra landa og telur Fornleifavernd vert að minna á að á sama tíma og farið er með það sem heilagan sannleik að 80 prósent ferðamanna segjast hafa áhuga á íslenskri náttúru þá segist stór hluti sama hóps hafa áhuga á íslenskri menningu og sögu.

Það er því mat Fornleifaverndar að í framtíðarvinnu með rammaáætlun sé eðlilegt að fjallað um menningarminjar til jafns við náttúru þegar lagt verði mat á ferðaþjónustu á Íslandi. „Í raun má segja að við búum við gervimennsku því það er verið að búa til sögustaði og söfn á meðan ekkert er gert fyrir sjálfar fornleifarnar sem við eigum. Það er öfugsnúið," segir Kristín.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×