Innlent

Fallegur fiskur lagður í sósuna

Það var fallegur fiskur sem þeir Kristján Berg og Gunnar Ásgeirsson í fiskbúðinni Fiskikónginum skáru niður í marineringu í gær. Viðskiptavinum verslunarinnar býðst biti af fiskinum í dag.
Það var fallegur fiskur sem þeir Kristján Berg og Gunnar Ásgeirsson í fiskbúðinni Fiskikónginum skáru niður í marineringu í gær. Viðskiptavinum verslunarinnar býðst biti af fiskinum í dag. Mynd/Stefán
Brúnin lyftist heldur betur á Kristjáni Berg í fiskbúðinni Fiskikónginum þegar sjómenn af Þór HF færðu honum guðlax í gær. Þessi sextíu kílóa fiskur slæddist í trollið á 400 faðma dýpi, 230 mílur úti af Reykjanesi.

Kristján vildi þó ekki vera einn um dásemdina svo hann ákvað að marinera fiskinn og bjóða viðskiptavinum bita af guðlaxinum á grillið í dag.

„Ég er búinn að vera í þessum bransa síðan 1989 og þetta er í þriðja sinn sem ég fæ guðlax á borð til mín," segir Kristján, sem lært hefur af mistökunum.

„Árið 1991 sendi ég eitt stykki norður og borgaði 80 þúsund kall fyrir að láta stoppa hann upp en síðan hef ég ekki séð hann, þannig að ég ætla bara að gefa hann núna."

Jónbjörn Pálsson, frá nytjasviði Hafrannsóknastofnunar, segir það afar sjaldgæft að guðlax slæðist í trollin. „Það er nú ekki langt síðan ég sá einn en hann var búinn að vera tíu ár í frysti þannig að hann var orðinn ósköp gugginn," segir hann.

Hann beinir þeim tilmælum til Fiskikóngsmanna að bandarískir vísindamenn séu á höttunum eftir bút úr guðlaxi til DNA-rannsókna. Þeir telja að til séu fleiri tegundir af þessum fallega fiski en þær tvær tegundir sem vitað er um í dag.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×