Innlent

Líkir meðferð Ísraela við apartheid

Össur hitti utanríkisráðherra Palestínustjórnar í gær. Hann segir meðferð Ísraela á Vesturbakkanum helst líkjast aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.
Össur hitti utanríkisráðherra Palestínustjórnar í gær. Hann segir meðferð Ísraela á Vesturbakkanum helst líkjast aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra var á ferð um Vesturbakkann og Jerúsalem í gær að kynna sér aðstæður. Hann segir þær skelfilegar.

„Ég hef sérstaklega verið að kynna mér þetta svokallaða landnám Ísraela og það er engum blöðum um það að fletta að þeir þjarma kerfisbundið að Palestínumönnum á þessum slóðum. Það kerfi sem þeir hafa sett hér upp minnir óhuggulega mikið á aðskilnaðarstefnuna í Suður Afríku á sínum tíma.“

Össur fundaði á fimmtudag með Riad Al Malki, utanríkisráðherra Palestínustjórnar, og tjáði honum að þjóðstjórn Fatah og Hamas væri forsenda þess að vinir Palestínumanna í Evrópu gætu stutt þá með eins miklum þunga og mögulegt væri.

„Ég sagði honum sömuleiðis að ef fram kæmi tillaga á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í haust, að þeirra undirlagi, um að lýsa yfir stuðningi við Palestínu sem fullvalda ríki, miðað við landmærin 1967, þá mundi Ísland styðja hana.“

Eins mundi Ísland styðja tillögu um að Palestína yrði tekin inn í Sameinuðu þjóðirnar, en Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst því yfir að hann vonist til þess að svo verði.

Össur afhenti utanríkisráðherranum yfirlýsingu, svokallaða diplómatanótu eða skriflega yfirlýsingu, þess efnis að Ísland mundi hækka stöðu palestínsku sendinefndarinnar gagnvart Íslandi, sem hefur aðsetur í Ósló, upp í formlega sendiskrifstofu. Það þýðir að yfirmaður hennar hefur titilinn sendiherra gagnvart Íslandi, án þess að hafa formlegar skuldbindingar.

„Með þessu erum við að sýna stuðning okkar við palestínsku þjóðina í verki,“ segir Össur.

- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×