Innlent

Upplýsingalög verða skoðuð aftur í haust

Sagnfræðingur segir misbrest á að fyrirspurnum hans um opinberar upplýsingar hafi verið sinnt. Allsherjarnefnd Alþingis segir að lagst verði yfir frumvarp um ný upplýsingalög í ágúst. Fréttablaðið/valli
Sagnfræðingur segir misbrest á að fyrirspurnum hans um opinberar upplýsingar hafi verið sinnt. Allsherjarnefnd Alþingis segir að lagst verði yfir frumvarp um ný upplýsingalög í ágúst. Fréttablaðið/valli
Róbert Marshall
Fræðimenn, blaðamenn og aðrir sem ekki fara með þau gögn hins opinbera sem undanþegin eru upplýsingarétti, svo sem um fjárhag einstaklinga, í samræmi við fyrirmæli stofnana geta átt yfir höfði sér fjársektir eða allt að þriggja ára fangelsisdóm, samkvæmt frumvarpi um ný upplýsingalög. Frumvarpið liggur nú á borði Allsherjarnefnd Alþingis.

Björn Jón Bragason sagnfræðingur gagnrýnir frumvarpið í grein sem hann ritar í nýjasta tölublaði Þjóðmála. Hann bendir á að mikill misbrestur sé á að núgildandi upplýsingalögum sé framfylgt þótt þau tryggi í flestu aðgengi almennings að upplýsingum. Frumvarp um ný lög segir hann hins vegar ekki samið í anda nútímalegra viðhorfa þar sem víðtækur réttur einstaklinga til upplýsinga stjórnvalda er tryggður og vísar til fyrrnefndra viðurlaga ef ekki er farið eftir fyrirmælum hins opinbera. Ákvæðið telur hann fela í sér tálmun á upplýsingarétti.

„Frumvarpið felur um sumt í sér afturhvarf til leyndarhyggju fyrri alda, en frekari leynd yfir opinberum upplýsingum mun leiða til enn meiri misnotkunar opinbers valds en nú er,“ skrifar Björn.

Róbert Marshall, formaður Allsherjarnefndar Alþingis, segir margt til bóta í nýju frumvarpi um upplýsingalög frá því sem áður var þótt ekki hafi sérstaklega verið fjallað um viðurlögin. Einkum sé þrennt jákvætt í þeim; þau opni fyrir aukið aðgengi almennings að upplýsingum. Þar á meðal eru upplýsingar um fyrirtæki í eigu ríkisins, ákvæði sem opnar fyrir upplýsingar um hæfisskilyrði, launa- og ráðningakjör opinberra starfsmanna auk þess sem stjórnvöldum er skylt að aðstoða viðkomandi í upplýsingaleit ef fyrirspurn er ónákvæm.

„Það eru miklar skoðanir á frumvarpinu í Allsherjarnefnd og menn hafa miklar meiningar um að gera breytingar á því. Þótt margt sé til bóta sem opnar á upplýsingar fyrir almenning og fjölmiðla þá vilja menn ganga lengra,“ segir Róbert. Hann bendir á að málið verði tekið fyrir í heild sinni hjá Allsherjarnefnd í ágúst.

jonab@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×