Erlent

Ástandið versnar enn í Sómalíu

Þessi börn sem liggja á sjúkrahúsi í Mogadisjú eru meðal þeirra milljóna sem bíða hjálpar vegna neyðarástandsins í Austur-Afríku.
Þessi börn sem liggja á sjúkrahúsi í Mogadisjú eru meðal þeirra milljóna sem bíða hjálpar vegna neyðarástandsins í Austur-Afríku. Mynd/AP
Sameinuðu þjóðirnar og hjálparstofnanir segja að enn sé þörf á frekari aðstoð til nauðstaddra á þurrkasvæðunum í Austur-Afríku. Tólf milljónir manna eru í lífshættu vegna fæðuskorts og ríkir hungursneyð í tveimur héruðum Sómalíu, sem hefur orðið verst úti í þurrkunum.

Bresku hjálparsamtökin Oxfam segja að hungursneyðin sé að aukast hratt og að framlög hrökkvi skammt til að vinna gegn versnandi ástandi.

Mannúðarmálaskrifastofa Sameinuðu Þjóðanna segir jafnframt í yfirlýsingu að ef ekki komi til stóraukin framlög frá alþjóðasamfélaginu muni hungursneyðin breiðast út til fimm eða sex sómalískra héraða í viðbót.

Sameinuðu Þjóðirnar telja að enn vanti 1.400 milljónir Bandaríkjadala til að sporna við neyðinni.

Samkvæmt síðustu tölum frá Matvælaaðstoð Sameinuðu Þjóðanna (WFP) koma um 3.200 sómalískir flóttamenn yfir landamærin til Eþíópíu og Keníu á degi hverjum og hafast nú við rúmlega 700 þúsund menn konur og börn við gríðarlega bágar aðstæður.

Þar að auki hefur um ein og hálf milljón flóttamanna leitað til höfuðborgarinnar Mogadisjú.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×