Bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands hefst á Kópavogsvelli klukkan 18 í dag. Sex lið eru skráð til keppni. Ármann/Fjölnir, Breiðablik, FH, HSK, ÍR og Norðurland.
ÍR og FH eru talin líklegust til afreka. ÍR-liðið hefur unnið bikarinn undanfarin tvö ár og á titil að verja. Í fyrra sigruðu Breiðhyltingar í sameiginlegu keppninni og kvennakeppninni en FH hafði betur í karlakeppninni.
Nokkuð er um forföll í báðum liðum. Landsliðskonur vantar í lið ÍR en hjá FH-ingum glímir Bergur Ingi Pétursson sleggjukastari við meiðsli og verður ekki með. Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni verður heldur ekki með vegna meiðsla.
Að öðru leyti mætir fremsta frjálsíþróttafólk landsins til leiks en Ásdís Hjálmsdóttir mun ekki geta beitt sér að fullu á mótinu vegna meiðsla.
