Innlent

Ólga í Framsókn vegna Evrópumála

Andrés Pétursson
Andrés Pétursson
Titringur virðist vera meðal stuðningsmanna umsóknar Íslands að Evrópusambandinu (ESB) í Framsóknarflokknum vegna yfirlýsingar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, í gær um að leggja ætti umsóknina til hliðar. Nokkrir foyrstumanna flokksins á höfuðborgarsvæðinu sögðu sig úr honum í gær.

Meðal þeirra eru Andrés Pétursson, sem var í þriðja sæti á lista flokksins í Kópavogi í bæjarstjórnarkosningunum í fyrra, Gestur Guðjónsson, stjórnmaður í Framsóknarfélaginu í Reykjavík, og G. Valdimar Valdemarsson, formaður Framsóknarfélags Kópavogs.

Í bréfi sem Andrés sendi Fréttablaðinu segir hann skrýtið að yfirgefa flokkinn eftir þrettán ár. Forysta flokksins hafi hins vegar sveigt stefnu hans á braut sem sér hugnist ekki. Að ákveða fyrir fram hvort aðild þjóni hagsmunum Íslendinga sé forsjárhyggja sem eigi hvorki skylt við frjálslyndi né víðsýni, segir Andrés, sem er formaður Evrópusamtakanna.

Grein eftir Sigmund Davíð birtist í Morgunblaðinu í gær þar sem hann lagði til að umsóknin að ESB yrði sett til hliðar að sinni. Í Alþingiskosningunum 2009 hafði flokkurinn á stefnuskrá sinni að aðildarviðræður við ESB skyldu hafnar en á flokksþingi í apríl var ályktað að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan ESB. Tillaga þess efnis að draga umsóknina til baka var hins vegar felld naumlega. - mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×