Innlent

Kemur með meiri rigningu

Svona var umhorfs í bænum Waterbury í Vermont í gær þegar Írena var farin hjá. fréttablaðið/AP
Svona var umhorfs í bænum Waterbury í Vermont í gær þegar Írena var farin hjá. fréttablaðið/AP
Fellibylurinn fyrrverandi, Írena, kemur upp að ströndum landsins á fimmtudag, en líkast til verður hún ekki frábrugðin þeim 300 lægðum sem koma upp að landinu á hverju ári.

Írena olli miklum skemmdum á meðan hún var í hámarki og æddi yfir Karíbahafið og ríkin á norðausturströnd Bandaríkjanna. Henni þvarr þó kraftur eftir því sem norðar dró og var stödd yfir Kanada í gær.

Hátt á þriðja tug manna létu lífið í Bandaríkjunum, milljónir manna þurftu að búa við rafmagnsleysi og víða ollu flóð miklum skemmdum. Mesta tjónið varð reyndar af vatnsflóðinu sem streymdi úr skýjunum frekar en af völdum þess ofsaroks sem fylgdi Írenu, enda varð það rok ekki jafn öflugt og óttast var fyrir fram.

Lestarkerfið í New York var tekið úr notkun áður en stormurinn skall á um helgina og óttuðust íbúar borgarinnar öngþveiti þegar það færi af stað aftur. Þá þurfti að fella niður meira en 9.000 flugferðir.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands mun Írena renna upp að suðurströnd landsins á fimmtudag.

„Það á ekki að verða neinn stormur af því. Það verður suðaustanátt og rigning á sunnanverðu landinu. Lægðin mun svo staldra við suður af landinu þar sem hún eyðist svo um helgina.“- þj, gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×