Skoðun

Mannréttindi sjúklinga eða byggðapot?

Auður Styrkársdóttir og Svanur Kristjánsson skrifar
Velunnurum geðsjúkra var mjög brugðið að heyra þingmenn og sveitarstjórnarmenn ræða lokun réttargeðdeildarinnar að Sogni út frá byggðasjónarmiðum og atvinnumálum í héraði. Starfsemin virtist engu máli skipta, hvað þá þeir einstaklingar sem þar dvelja. Það hefur hins vegar lengi legið fyrir að húsnæðið hentar engan veginn starfseminni.

Erfiðlega hefur gengið að fá sérmenntað fólk til starfa og ýmiskonar vandræði hafa stafað af því að hafa þetta sjúkrahús fjarri mannabyggðum og skjótum og góðum aðgangi að læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki. Því það er það sem Sogn er fyrst og síðast: sjúkrahús. Þarna dvelja sjúkar manneskjur. Þær eiga rétt á þeirri bestu heilbrigðisþjónustu sem þetta land getur látið í té, eins og aðrir Íslendingar.

Við vitum ekki hvaða kynni viðkomandi þingmenn eða sveitarstjórnarmenn hafa af geðsjúkum eða geðsjúkdómum. Framgangan og yfirlýsingarnar lýsa hinsvegar svo himinhrópandi skilningsleysi á málinu að við getum ekki annað en vonað að vanþekking ráði för.

Margir aðilar, þ.ám. félagið Geðhjálp sem við tilheyrum, hafa talað fyrir því um árabil að leggja réttargeðdeildina niður á Sogni og færa hana til þess staðar þar sem hún á heima: samneyti við besta fagfólk landsins á þessu sviði alltaf, á öllum tímum. Nú er það loksins að verða að veruleika. Við förum fram á stuðning allra landsmanna við þetta mannréttindamál. Við hljótum einnig að krefjast þess af þingmönnum að þeir gangi fram fyrir skjöldu fyrir geðsjúka með hagsmuni þeirra að leiðarljósi og finni einhver ráð til að lægja öldur heima fyrir frekar en að æsa þær upp.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×