Fótbolti

Gylfi Þór orðaður við Atletico Madrid í spænskum fjölmiðlum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Hoffenheim.
Gylfi Þór Sigurðsson í leik með Hoffenheim. Nordic Photos / Bongarts

Spænska dagblaðið As fullyrðir í dag að Atletico Madrid hafi áhuga á að fá Gylfa Þór Sigurðsson til liðs við sig næsta sumar.

Blaðið segir að til standi að styrkja liðið fyrir næsta tímabil en liðinu hefur ekki gengið sem skyldi í ár.

Atletico er í sjöunda sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með 30 stig, ellefu stigum frá fjórða sætinu sem er það síðasta sem tryggir spænskum liðum þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu.

Því ætli liðið að mæta sterkara til leiks á næsta ári og efstir á óskalista forráðamanna félagsins eru þeir Gylfi Þór og Anderson, leikmaður Manchester United.

Gylfi var keyptur til þýska liðsins Hoffenheim í sumar á 5,2 milljónir evra. Hann hefur staðið sig vel á sínu fyrsta tímabili og er markahæsti leikmaður liðsins með sjö mörk í deild og bikar.

Ólíklegt þykir að Hoffenheim sé reiðbúið að selja Gylfa en það er þó aldrei að vita. Félagið seldi bæði Demba Ba (til West Ham) og Luiz Gustavo (til Bayern München) nú í janúar og í sumar keypti rússneska félagið Rubin Kazan einn besta leikmann liðsins á síðustu leiktíð, Brasilíumanninn Carlos Eduardo.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gylfi er orðaður við stórlið í Evrópu en hann var fyrir nokkrum vikum sagður undir smásjá Manchester United.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×