Innlent

Þolinmæði Þingeyinga á þrotum

Biðlundin eftir því að atvinnuuppbygging hefjist í Þingeyjarsýslum er að verða ansi lítil, segir bæjarstjóri Norðurþings. Hann segir álver Alcoa enn fýsilegan kost og segir að ríkisstjórninni muni ekki takast að ganga yfir heimamenn með friðlýsingu Gjástykkis.

Landsvirkjun á nú í viðræðum við nokkur fyrirtæki um iðnaðaruppbyggingu á Bakka við Húsavík, en þar til í fyrra var álver á vegum Alcoa það eina sem rætt var um. Þótt andstaða innan núverandi stjórnarflokka gegn álveri hafi ekki farið leynt vill bæjarstjóri Norðurþings, Bergur Elías Ágústsson, ekki afskrifa álver. Markmiðið sé enn að skapa 600-800 ný störf í héraðinu. Norðurþing hafi átt gott samstarf við Alcoa og það eina sem standi útaf núna sé að semja við orkukaupanda. Þar sé Alcoa fýsilegur kostur.

Spurður hvort Alcoa sé óskakostur númer eitt svarar bæjarstjórinn að Alcoa hafi verið það í allmörg ár. Hann ítrekar þó að meginmarkmiðið sé að skapa 600-800 störf í Þingeyjarsýslum, sem þurfi til að ná hagvexti á svæðinu og snúa við þeirri íbúaþróun sem verið hafi undanfarin ár.

Fyrir norðan hafa menn sett áform ríkisstjórnar um friðlýsingu Gjástykkis sem lið í því að koma álverinu fyrir kattarnef. Bergur Elías segir að sumir haldi þessu fram að þetta sé til að höggva í orkupottinn en kveðst ekki vilja tjá sig sérstaklega um það nú.

Hann segir þó að friðlýsingu Gjástykkis verði ekki kyngt og segir það mál sorglegt. Með friðlýsingu sé ætlunin að ganga gegn vilja heimamanna. Segir Bergur Elías að þeir sem þarna búi séu fyllilega meðvitaðir um sitt umhverfi og sé annt um það. Einnig sé farið gegn samþykktu skipulagi sem ráðherra hafi staðfest. Spurður hvort verið sé að ganga yfir heimamenn svarar bæjarstjórinn að þetta sé allavega ákveðin tilraun til slíks en hún muni ekki takast.

Hann segir að biðin eftir atvinnuuppbyggingu sé orðin býsna löng. Biðlundin sé að verða ansi lítil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×