Skoðun

Allir tapa

Stjórnvöld hafa lagt til að heimildir launþega til greiðslu á frádráttarbæru iðgjaldi til viðbótarlífeyrissparnaðar lækki úr 4% af launum í 2%. Rökin fyrir þessari tillögu eru að þannig muni neysla aukast og þá um leið hagvöxtur. Meginástæðan fyrir tillögunni er þó sú að með þessari aðgerð aukast tekjur ríkissjóðs til skamms tíma um 1,4 milljarða eða 0,3% af heildarskatttekjum næsta árs.

Með tillögunni er horft fram hjá þeirri staðreynd að þörfin fyrir viðbótarlífeyrissparnað hefur aldrei verið meiri en núna. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir gerbreyttri samsetningu þjóðarinnar og því breyttu þjóðfélagi á næstu áratugum með auknu vægi lífeyrisþega. Í dag eru til dæmis rúmlega fimm vinnandi einstaklingar á móti hverjum lífeyrisþega en eftir 20 ár er því spáð að þeir verði þrír og eftir 40 ár aðeins tveir. Af þessu leiðir að í framtíðinni verða mun færri sem greiða skatta af atvinnutekjum til að fjármagna samneysluna, á sama tíma og velferðarkerfið þarf að vaxa með fjölgun lífeyrisþega og hækkandi lífaldri þeirra.

Kosturinn við viðbótarlífeyrissparnað er að einstaklingar ráða því sjálfir hvort þeir nýta sér hann til að búa í haginn fyrir framtíðina. Þegar kreppir að geta þeir hætt tímabundið með sparnaðinn og byrjað svo aftur þegar svigrúm eykst á ný. Allir hagnast ef einstaklingar geta nýtt sér þessa heimild. Einstaklingurinn sjálfur fær hærri eftirlaun, ríkið fær skatta af eftirlaununum og þörfin fyrir opinberan stuðning verður minni. Það myndi lýsa mikilli skammsýni ef ríkið gripi nú til þess ráðs að minnka heimildir til sparnaðar til að auka tekjur til skamms tíma. Með því er einnig vegið að kerfi sem tekist hefur að byggja upp frá árinu 1999. Inngrip af þessu tagi eru óheppileg þegar kemur að sparnaði og það er óvíst að einstaklingar byrji aftur að spara þó svo að heimildir verði auknar á ný.

Vonandi bera þingmenn gæfu til að hafna tillögu stjórnvalda um að minnka heimildir til viðbótarlífeyrissparnaðar. Það er öllum fyrir bestu.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×