Menning

Umbrot í máli og myndum

Kápa bókarinnar.
Kápa bókarinnar.
Ljósmyndabókin Ísland á umbrotatímum eftir Björn Erlingsson kom út á dögunum. Þar lýsir höfundurinn í máli og myndum þeim hræringum sem orðið hafa í íslensku samfélagi á liðnum misserum.

Í bókinni Ísland á umbrotatímum leitast Björn Erlingsson við að lýsa með ljósmyndum og stuttum texta þeim umbrotum sem orðið hafa í íslensku þjóðlífi á undförnum misserum og áratugum. Bókin skiptist í fjóra meginkafla; hefst á eyðijörðum sveitanna sem endurspegla þær miklu breytingar sem urðu á að búsetu landsmanna á öldinnui sem leið. Annar kafli fjallar um samfélag velmegunar og efnishyggju, sá þriðji um efnahagshrunið en fjórði og síðasti kaflinn um umhverfismál.

„Hugmyndin að þessari bók kviknaði upp úr hruni," segir Björn. „Ég tók saman punkta sem ég hafði skrifað og setti saman við myndir sem ét tók og þetta virkaði nokkuð vel saman. Svo vatt þetta upp á sig og úr varð þessi bók."

Sumar myndanna í bókinni hafa ekki komið fyrir augu almennings áður, til dæmis úr Búsáhaldabyltingunni. Oft var Björn í hringiðu atburðanna, ein myndin sýnir hann sjálfan til dæmis þrútinn í augum eftir að hafa fengið piparúða yfir sig.

„Ég vildi komast sem næst atburðunum en gætti mig jafnframt á því að hafa ekki áhrif á framvinduna, því markmiðið var eingöngu að ná myndum og „dokúmentera" það sem var að gerast."

Björn hefur áður gefið út ljósmyndabókina Allra veðra von, frá 2003, sem gekk meira út á náttúrustemningu og ljóðrænu. „Bækurnar kallast hins vegar að vissu leyti á, þær eru unnar út frá ákveðnu þema, brotstærðin er sú sama og textinn bæði á íslensku og ensku. Það er aldrei að vita nema ég geri fleiri verk í þessum dúr og þrói þetta út í sérstakan bókaflokk."

Bókin kemur út á vegum forlagsins Kjöls, sem Björn starfrækir sjálfur en hann er bókbindari að mennt og starfar sem slíkur, en hefur einnig numið ljósmyndun."

„Þessi kunnátta hefur nýst mér vel, ég sé um hönnun bókarinnar, umbrot og bókband. Ég þyrfti bara að prenta bókina líka til að teljast algjörlega sjálfbær með hana."

bergsteinn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.