Fótbolti

Milan gerði jafntefli í átta marka leik - Cambiasso hetja Inter

Elvar Geir Magnússon skrifar
Zlatan Ibrahimovic og Mauricio Isla í baráttunni í dag.
Zlatan Ibrahimovic og Mauricio Isla í baráttunni í dag.

AC Milan gerði 4-4 jafntefli við Udinese í ótrúlegum leik í ítölsku A-deildinni í dag. Milan lenti 3-1 undir í leiknum en náði að bjarga stigi úr leiknum. Udinese tók forystuna eftir 35 mínútur þegar Antonio Di Natale skoraði af stuttu færi. Rétt fyrir hálfleik jafnaði Milan með marki Alexandre Pato eftir undirbúning hjá Zlatan Ibrahimovic.

Skyndisóknir Udinese voru stórhættulegar og þeir Alexis Sanchez og Di Natale komu liðinu í 3-1. Milan minnkaði muninn með sjálfsmarki áður en Pato skoraði sitt annað mark og jafnaði í 3-3 á 82. mínútu.

Milan sótti stíft en úr enn einni skyndisókninni komst Udinese í forystu á 89. mínútu þegar varamaðurinn German Denis skoraði.

Leikurinn var þó ekki búinn því að í uppbótartímanum jafnaði Zlatan eftir sendingu frá Antonio Cassano. Milan fékk svo færi til að stela öllum stigunum í blálokin.

Milan er á toppi deildarinnar með 40 stig, sex stiga forystu á Lazio sem tapaði 1-2 á heimavelli fyrir Lecce í dag. Napoli er í þriðja sæti með 33 stig en á leik inni gegn Juventus í kvöld og getur komist upp í annað sætið.

Roma er með 32 stig í fjórða sæti en liðið tapaði 2-1 fyrir Sampdoria í dag. Juventus er stigi á eftir Roma en getur klifið upp töfluna í kvöld. Palermo er með 31 stig í sjötta sætinu en liðið gerði markalaust jafntefli við Chievo.

Hagstæð úrslit í dag fyrir Inter sem er í sjöunda sæti með 29 stig eftir 2-1 útisigur á Catania. Liðið lenti undir á 71. mínútu en Esteban Cambiasso reyndist hetjan, skoraði á 74. og 79. mínútu. Leonardo er því kominn með fullt hús úr fyrstu tveimur leikjum sínum við stjórnvölinn hjá Inter.

Sampdoria-Roma 2-1

Bari-Bologna 0-2

Catania-Inter 1-2

Cesena-Genoa 0-0

Chievo-Palermo 0-0

Fiorentina-Brescia 3-2

Lazio-Lecce 1-2

Milan-Udinese 4-4

Parma-Cagliari 1-2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×