Viðskipti innlent

Google stofnar fyrirtæki á Íslandi

Google er eitt af stærstu fyrirtækjum í heimi. Fyrirtækið hefur nú fengið íslenska kennitölu og heimilisfang að Stórhöfða 21.Fréttablaðið/AP
Google er eitt af stærstu fyrirtækjum í heimi. Fyrirtækið hefur nú fengið íslenska kennitölu og heimilisfang að Stórhöfða 21.Fréttablaðið/AP

Netrisinn Google hefur stofnað fyrirtæki á Íslandi. Google er með íslenska kennitölu og lögheimili að Stórhöfða 21. Stofnendur fyrirtækisins samkvæmt Lögbirtingablaðinu eru Graham Law, fjármálastjóri hjá Google, og Ronan Aubyn Harris, framkvæmdastjóri hjá Google. Báðir eru þeir skráðir til heimilis á Írlandi en höfuðstöðvar Google í Evrópu eru einmitt í höfuðborg Írlands, Dublin.

Ráðgjafarfyrirtækið Hyrna sem er til heimilis að Stórhöfða 21 aðstoðaði við að stofna fyrirtækið hér á landi. Bernhard Peter­sen, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, staðfesti þetta í samtali við Fréttablaðið en sagðist hins vegar ekki vita til hvers Google væri að stofna fyrirtækið hér á landi og vildi ekkert tjá sig frekar um málefni þess. Á hinn bóginn sagði hann að þegar erlend fyrirtæki stofnuðu fyrirtæki hér á landi mætti gera ráð fyrir „að þau væru að skoða möguleikann á því að vera með tekjuskapandi verkefni hér á landi“.

Fréttablaðið hafði samband við Laurie Mannix hjá fjölmiðladeild Google á Írlandi. Hún hafði fátt um þetta fyrirtæki að segja en bætti því við að Google Europe hefði ekki í hyggju að opna skrifstofu á Íslandi í bráð.

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×