Innlent

Tölvu stolið af Spaugstofumanni - handrit að næsta þætti horfið

Valur Grettisson skrifar
Karl Ágúst Úlfsson biður þjófinn um að senda sér í það minnsta gögnin.
Karl Ágúst Úlfsson biður þjófinn um að senda sér í það minnsta gögnin.

„Þetta er nýskeð, gerðist líklega um helgina," segir Spaugstofumaðurinn Karl Ágúst Úlfsson sem varð fyrir því óláni um helgina að tölvunni hans var stolið úr bílnum hans í Garðabæ. Karl Ágúst er ekki viss hvenær nákvæmlega þjófnaðurinn átti sér stað en tölvan var geymd í bakpoka í bílnum.

Tölvan var ekkert sérstaklega verðmæt að sögn Karls Ágústs en hinsvegar var tveggja ára vinna geymd í tölvunni, þar á meðal næsti Spaugstofuþáttur.

Aðspurður hvort Spaugstofan verði handritslaus næstu helgi segir hann stöðuna ekki svo slæma. „En þarna var hugmyndavinna og nokkur önnur handrit sem ég hef verið að vinna að í tvö ár."

Karl segir það líka bagalegt að kennsluefni sem hann hefur sett saman fyrir námskeið í Háskólanum var einnig að finna í tölvunni og því ljóst að talsverð vinna fer forgörðum endurheimti hann ekki vélina.

„Tölvan er ekki mikils virði. Efnið skiptir mig máli en engan annan," segir Karl Ágúst sem biðlar til betri vitundar þjófsins og biður hann um að skila í það minnsta gögnunum á tölvunni.

Sá hinn sami getur komist í samband við Karl Ágúst í gegnum netfangið undur@internet.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×