Innlent

Ófullnægjandi skýringar á Magma máli

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið og forsætisráðuneytið hafa ekki gefið fullnægjandi skýringar við athugasemdum umboðsmanns Alþingis í Magma-málinu að mati Geysis Green Energy, sem kvartaði til umboðsmanns.

Umboðsmaður Alþingis sendi forsætisráðherra bréf fyrr í haust þar sem hann gerði athugasemdir við yfirlýsingar ráðherrans og ýmsar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um fjárfestingu Magma á HS Orku, en efni bréfsins var opinberað í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku. Tilefni bréfsins var kvörtun sem barst frá lögmanni Geysis Green Energy, en fyrirtækið seldi Magma hlut sinn í HS Orku.

Umboðsmaður Alþingis benti forsætisráðherra á að stjórnvöld hefðu haft tækifæri til aðhafast í Magma-málinu en sleppt að nýta sér heimildir í lögum um erlenda fjárfestingu. Þá virtist hann draga í efa að ríkisstjórnin hefði viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti. Umboðsmaður sendi efnahags- og viðskiptaráðuneytinu einnig sambærilegt bréf þar sem hann gerði athugasemdir og óskaði skýringa.

Í svarbréfi forsætisráðherra sem fréttastofa hefur undir höndum kemur fram að það hafi ekki verið tilgangur nefndar um orku- og auðlindamál, sem ríkisstjórnin skipaði að hrófla við kaupum Magma á HS Orku, aðeins að kanna lögmæti viðskiptanna. Hins vegar er tekið fram í bréfinu að fræðilega hefði starf nefndarinnar getað sett af stað feril sem leiddi til endurskoðunar á niðurstöðu nefndar um erlenda fjárfestingu.

Í athugasemdum Geysis Green Energy til umboðsmanns við svarbréfi forsætisráðherra kemur fram að fyrirtækið ítreki hversu óeðlilegt það sé að niðurstaða nefndar um erlenda fjárfestingu, sem taldi viðskiptin lögmæt, sé dregin í efa af stjórnvöldum sjálfum. Þá gerir lögmaðurinn jafnframt alvarlegar athugasemdir við svör efnahags- og viðskiptaráðherra og segir að ekki verði séð að ráðuneytið hafi svarað ósk umboðsmanns um skýringar heldur einungis áréttað þá óvönduðu stjórnsýsluhætti sem íslensk stjórnvöld hefðu viðhaft í málinu.

Þess má svo geta að kaup Magma á HS Orku voru fullfrágengin í desember síðastliðnum, en ráðherrar í ríkisstjórnininni hafa ekki kaup á fyrirtækinu eða eignarnám, en það myndi kosta ríkissjóð að lágmarki þrjátíu milljarða króna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×