Erlent

Amnesty hvetur Suleiman til að stöðva ofbeldið

Amnesty fordæma þá aðför að blaðamönnum og mannréttindabaráttufólki sem yfirvöld standa fyrir. Blaðamenn hafa verið handteknir, baráttufólki verið ógnað og það beitt ofbeldi af hálfu öryggissveita
Amnesty fordæma þá aðför að blaðamönnum og mannréttindabaráttufólki sem yfirvöld standa fyrir. Blaðamenn hafa verið handteknir, baráttufólki verið ógnað og það beitt ofbeldi af hálfu öryggissveita
Amnesty International skorar á Omar Suleiman, varaforseta Egyptalands, að stöðva ofbeldið sem stuðningsmenn stjórnarinnar hafa beitt friðsama mótmælendur í Kairó og víðar í landinu á undanförnum dögum.

Samtökin fordæma einnig þá aðför að blaðamönnum og mannréttindabaráttufólki sem yfirvöld standa fyrir. Blaðamenn hafa verið handteknir, baráttufólki verið ógnað og það beitt ofbeldi af hálfu öryggissveita. Egypsk yfirvöld verða að tryggja vernd og öryggi mótmælenda, mannréttindafrömuða og blaðamanna.

Lögreglan hefur ekki reynt að koma í veg fyrir ofbeldið sem er skýrt merki um aðild yfirvalda að ofbeldisverkum stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar. Reynt er að þagga niður í þúsundum mótmælenda sem krefjast endurbóta og lýðræðis í landinu. Amnesty International hvetur yfirvöld í Egyptalandi til að virða rétt mómælenda til friðsamra mótmæla og verja þá árásum. Samtökin fordæma geðþótta handtökur og önnur brot.

Tveir starfsmenn Amnesty International eru meðal þeirra fjölmörgu sem handteknir hafa verið á undanförnum dögum. Þeir voru handteknir ásamt um þrjátíu öðrum sem voru í Hisham Mubarak Law Centre, HMLC, þegar herlögreglan réðst þar inn í gærmorgun. HMLC lögfræðisamtökin hafa í áraraðir unnið fyrir einstaklinga og hópa sem sætt hafa mannréttindabrotum í landinu. Á síðustu dögum hafa samtökin veitt fjölmörgum mótmælendum lögfræðiaðstoð sem og læknisaðstoð.

Amnesty International fer fram á að hinir handteknu verði nú þegar leystir úr haldi og að yfirvöld stöðvi aðförina að blaðamönnum og fulltrúum mannréttindasamtaka. Yfirvöld verða tafarlaust að binda enda á allar árásir á friðsama mótmælendur og tryggja öryggi þeirra og annarra sem hafa verið hnepptir í varðhald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×