Erlent

Börn sem borða mikið ruslfæði hafa lægri greind

Lélegt mataræði og lág greind fylgjast að, samkvæmt rannsókninni.
Lélegt mataræði og lág greind fylgjast að, samkvæmt rannsókninni.
Börn sem borða mikið ruslfæði eru líklegri til að vera með lægri greindarvísitölu en börn sem borða hollan mat. Þetta er niðurstaða breskrar rannsóknar sem birtist í vísindaritinu Journal of Epidemiology and Community Health.

Um er að ræða langtímarannsókn þar sem fylgst var með mataræði og greind 14 þúsund barna sem fædd eru á árunum 1991 og 1992. Foreldrar barnanna fylltu út spurningalista um hvers konar fæðu börnin þeirra neyttu þegar þau voru þriggja ára, fjögurra, sjö ára, og átta og hálfs árs gömul.

Þrennsk konar neyslumynstur komu í ljós; ruslflokkur þar sem börnin neyttu mikils magns af unnum matvörum, mettaðri fitu og sykri, hefðbundin neysla þár sem börnin borðuðu mikið af kjöti og grænmeti, og svo lokst heilsusamleg neysla þar sem grænmeti, ávextir og hrísgrjón voru aðal fæðutegundirnar sem börnin neyttu.

Greind barnanna var síðan mæld reglulega.

Mælingarnar leiddu í ljós fylgni á milli slæms mataræðis hjá þriggja ára börnum og lægri greind þegar þau verða 8,5 ára. Ekki skipti þarna máli þó mataræðið batnaði með árunum. Þannig komu ekki í ljós tengsl milli mataræðis og greindar hjá börnum á aldrinum 4 til 7 ára.

Heilinn þroskast hraðast á fyrstu þremur árum lífsins og því telja rannsakendur að mestu tengslin milli greindar og mataræðis sé einmitt að finna þegar miðað er við mataræði þriggja ára barna og greind þeirra þegar þau eru byrjuð í grunnskóla.

Greindarvísitala barna sem neyttu mikils af unnum mat voru að jafnaði með greindarvísitöluna 101 þegar þau voru 8,5 ára gömul en þau börn sem neyttu heilsufæðis voru að jafnaði með greindarvísitöluna 106.

Rannsakendur telja sig hafa útilokað aðrar mögulegar áhrifabreytur. Niðurstöðurnar eru ekki afgerandi en eru talin geta gefið vísbendingu um tengsl milli mataræðis og greindar barna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×